Undanfarnar vikur hafa verið erfiðar fyrir Apple, þrátt fyrir að efnahagur fyrirtækisins sér heilbrigður og rekstur gangi vel. Það er gengi hlutabréfa félagsins sem er að valda óstöðugleika hjá fjárfestum.
Fyrir einu og hálfu ári var markaðsvirði Apple 250 milljörðum Bandaríkjadala meira en það er nú. Það upphæð sem nemur árlegri landsframleiðslu Írlands, svo dæmi sé tekið.
Í samanburði við Ísland, þá er upphæðin meira en tíföld árleg landframleiðsla Íslands.
Gengi hlutabréfa félagsins hefur rokið upp á liðnum árum, enda hefur vöxtur félagsins verið með ólíkindum. Árið 2004 námu heildartekjur 14 milljörðum Bandaríkjadala, en tíu árum seinna voru tekjurnar 233 milljarða Bandaríkjadala (Dalurinn = 122 ISK). Aukningin milli ára hefur síðan verið stöðug, allt þar til í byrjun apríl. Eftir 51 ársfjórðung í röð, þar sem Apple sýndi tekjuvöxt, þá komu loks fram tölur sem sýndu samdrátt.
Aukning markaðsvirðis Apple á síðustu fjórum árum er nú horfin, og virðast fjárfestar hafa áhyggjur af því að vaxtarskeiðinu sé lokið. Í það minnsta í bili.
Stofnandinn og forstjórinn heitinn, Steve Jobs, er oft nefndur þessa dagana, þar sem hann var frægur fyrir að koma fram með spennandi nýjungar þegar fyrirtækið þurfti á því að halda. Nú nýtur hans ekki við, og ekki augljóst hvaða nýjungar eiga að draga vagninn.
Þrátt fyrir að Apple Watch hafi verið ágætlega tekið, þá eru fáir á því að það geti verið vara sem verði viðlíka stór í sölu og i Phone hefur verið á síðustu árum.
Tim Cooke, forstjóri Apple, greindi frá því í viðtali við CNBC í síðustu viku að framtíðin væri björt hjá Apple. Fyrirtækið ætti svo til alveg eftir að dreifa vörum sínum á risastórum markaðssvæðum eins og Indlandi, þar sem markaðshlutdeild fyrirtækisins væri lítil. Cooke nefndi í viðtalinu að árið 2022 þá verði Indland orðið fjölmennasta ríki heimsins, og millistéttin þar væri ört vaxandi. Það væri áskorun fyrir Apple að koma sér betur fyrir í Asíu, ekki síst í Indlandi. Kína væri ekki eina landið sem þyrfti að einblína á, heldur ekki síður önnur lönd í Asíu, þar sem Apple ætti fullt erindi með vörur sínar.