Alls segjast 69 prósent þeirra sem taka afstöðu til þess hver eigi að vera næsti forseti landsins að þeir vilji Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing í embættið. Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum forsætisráðherra, mælist með 13,7 prósent fylgi og rithöfundurinn Andri Snær Magnason með 10,7 prósent. Þetta kemur fram í nýrri könnun Fréttablaðsins sem framkvæmd var á mánudagskvöld, og er þar með fyrsta könnunin sem gerð er eftir að Davíð tilkynnti framboð sitt á sunnudag.
Aðrir frambjóðendur mælast með mun minna fylgi. Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti, mælist með 3,2 prósent fylgi í könnuninni en hann tilkynnti á mánudag að hann væru hættur við að bjóða sig fram á ný, eftir að hafa hætt við að hætta við þann 18. apríl síðastliðinn. Halla Tómasdóttir, sem mælst hefur með nokkurt fylgi í könnunum til þessa, mælist nú einungis með eitt prósent fylgi. Aðrir voru með minna.
Í Fréttablaðinu kemur fram að stuðningur við efstu þrjá frambjóðendurna sé ólíkur eftir kyni og aldri. Guðni Th. nýtur meiri stuðnings á meðal kvenna en karla þótt ekki muni miklu. Það á einnig við um Andra Snæ en Davíð nýtur hins vegar mun meiri stuðnings meðal karla en kvenna, 18,8 prósent karla styðja hann en 8,6 prósent kvenna.
Fylgi Guðna er nokkuð jafnt meðal aldurshópa en Andri Snær sækir umtalsvert meira af sínu fylgi til fólks undir fimmtugu en til þeirra sem eldri eru. Davíð er á hinn bóginn mun vinsælli hjá eldra fólkinu en því yngra.
Aðferðarfræði könnunarinnar var þannig að hringt var í 1.019 manns þar til náðist í 799 manns. Svarhlutfallið var 78,4 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Alls tóku 73,9 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.