Gimi Levakovic, höfuðpaur einnar alræmdustu glæpafjölskyldu Danmerkur, mun fá að vera áfram í Danmörku. Hæstiréttur landsins komst að þeirri niðurstöðu í dag. Levakovic hafði áður verið gert að yfirgefa landið í kjölfar þess að hann myndi ljúka fimmtán mánaða fangelsisdómi sem hann hlaut í ágúst í fyrra. Levakovic, sem oft er kallaður „sígaunastjórinn“ (e. gypsy boss og d. sigøjnerbossen) hlaut dóminn í í héraðsdómi í Næstved fyrir líflátshótanir og vopnaburð.
Hann varð einn umtalaðasti maður Danmerkur í janúar 2015 eftir að danska sjónvarpsstöðin TV2 sýndi tvo sjónvarpsþætti um Levakovic fjölskylduna. Þættirnir voru gerðir með samþykki fjölskyldunnar og þar eru löng viðtöl við Gimi Levakovic og Jura bróðurson hans sem nú afplánar fimm ára dóm og verður vísað úr landi.
Kjarninn fjallaði ítarlega um fjölskylduna í fréttaskýringu í janúar 2015.
Grátklökkur
Levakovic komst svo aftur á forsíður danskra blaða í október 2015 þegar Eystri-Landsréttur snéri við dómi héraðsdóms sem hafði vísað Levakovic úr landi. Landsrétturinn þyngdi fangelsisdóminn um þrjá mánuði en snéri við brottvísunardóminum. Dómurinn vakti hörð viðbrögð í Danmörku.
Danskir fjölmiðlar sögðu á þeim tíma að Gimi Levakovic, sem venjulega er kokhraustur, hafi verið mjög stressaður í dómsalnum og svitinn perlað af honum. „Þegar hann heyrði að sér yrði ekki vísað úr landi grét hann eins og smábarn,“ sagði eitt dönsku blaðanna. Saksóknari sagði strax að dómsuppkvaðningu lokinni að hann myndi freista þess að fá málinu skotið til Hæstaréttar og vonaðist til að það tækist.
Það tókst og nú hefur Hæstiréttur staðfest þá niðurstöðu og sagt að brottvísun Levakovic, sem er króatískur ríkisborgari, sé í andstöðu við mannréttindasáttmála Evrópu. Héraðsdómurinn yfir Levakovic var dómur númer 27 sem hann hlýtur í Danmörku. Á Facebook-síðu sinni í dag fagnar hann ákvörðuninni og segist grátklökkur.
Varð landsþekkt eftir sjónvarpsþátt
Levakovic-fjölskyldan varð landsþekkt í Danmörku í janúar 2015 þegar sjónvarpsstöðin TV2 sýndi tvo þætti um hana sem byggðust að miklu leyti á viðtölum við ættarhöfuðið Gimi. Fjölskyldan flutti frá Króatíu til Danmerkur árið 1972 og hefur alla tíð síðan verið á framfæri danskra skattborgara og hefur þegið jafngildi 1700 milljóna íslenskra króna sér til framfærslu. Fjölskyldan, sem býr á Amager, hefur stækkað á þessum 43 árum og telur nú fleiri en 40. Enginn úr fjölskyldunni hefur stundað launaða vinnu. Framfærslulífeyrir hins opinbera hefur þó ekki hrokkið til og fjölskyldan, einkum karlarnir, virðast hafa drýgt tekjurnar með ránum og gripdeildum, sem þeir hafa stundum hlotið dóma fyrir.
Ættarhöfuðið Gimi Levakovic hefur í viðtölum sagt að fjölskylda sín standi saman í blíðu og stríðu. Afskipti lögreglunnar hafa stundum orðið til að trufla heimilisfriðinn. Sjálfur hefur Gimi, sem er 46 ára, setið inni í tæp sjö ár samtals og bræður hans og bræðrasynir hafa margoft setið inni, um lengri eða skemmri tíma. Sumum þeirra hefur oftar en einu sinni verið vísað úr landi en þeir hafa jafnharðan snúið aftur til Danmerkur.