Níu forsetaframbjóðendur skiluðu inn undirskriftum meðmælenda til yfirkjörstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Einn skilaði í suðurkjördæmi. Byrjað var að taka á móti undirskriftum klukkan 13. Frestur til að skila inn framboði til embættis forseta Íslands rennur út á miðnætti föstudaginn 20. maí.
Samkvæmt upplýsingum frá yfirkjörstjórn voru þeir frambjóðendur sem skiluðu inn þau Hildur Þórðardóttir, Halla Tómasdóttir, Ástþór Magnússon, Guðni Th. Jóhannesson, Andri Snær Magnason, Sturla Jónsson, Davíð Oddsson, Elísabet Kristín Jökulsdóttir og Guðrún Margrét Pálsdóttir. Magnús Ingiberg Jónsson skilaði undirskriftum í suðurkjördæmi.
Ari Jósepsson dró framboð sitt til baka í dag. Þeir frambjóðendur sem ekki skiluðu undirskriftum eru þau Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Magnús Ingberg Jónsson og Magnús Ingi Magnússon.
Þessi frétt var uppfærð klukkan 17:30. Upprunalega stóð í greininni að frestur til að skila inn framboði væri runninn út. Það er ekki rétt. Hann er til 20. maí. Beðist er afsökunar á þessu.