Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir nokkra samflokksmenn sína harðlega fyrir að tala flokkinn niður. Hún segir í færslu á Facebook „karlpeninginn í Samfylkingunni keppast við að boða dauða flokksins nema þeir fái að stjórna honum."
Þarna á Ólína væntanlega við þá Magnús Orra Schram, varaþingmann og formannsframbjóðanda, sem segist ætla að leggja Samfylkinguna niður nái hann kjöri og stofna annan flokk, og Árna Pál Árnason, fráfarandi formann, sem gagnrýnir stöðu flokksins harðlega í viðtali við DV í dag.
Ólína skrifar:
„Jæja, nú get ég ekki orða bundist vegna karlpeningsins í Samfylkingunni sem keppist við að boða dauða flokksins nema þeir fái að stjórna honum. Því miður fyrir ykkur strákar mínir þá er þetta ekki svona." Hún segir flokkinn eiga alla möguleika á að dafna vel, fái hann frið fyrir fólki með þetta hugarfar, eins og hún orðar það.
„Samfylkingin er til orðin um jafnaðarhugsjónina. Þörfin fyrir jöfnuð, réttlæti, samstöðu og lýðræði hefur sjaldan ef nokkru sinni verið brýnni en einmitt nú á dögum. En stjórnmálaflokkar eru líka fólkið sem í þeim starfar. Sé starfið innt þannig af hendi að umhyggja fyrir hugsjóninni standi ofar persónulegum metnaði og athygliþörf eru allar líkur á að vel takist til. Því miður hefur nokkur misbrestur orðið á því innan Samfylkingarinnar þar sem menn keppast nú við að gefa út dánarvottorðið af því þeir sjá ekki fram á að fá að ráða ferðinni sjálfir.
Ég bið flokknum vægðar gegn þessum sjálfsmorðsárásum örvæntingarfullra formannsframbjóðenda. Við sem störfum í flokknum af heilindum og hugsjón eigum þetta ekki skilið.“