Landsvirkjun bindur miklar vonir við að nýr samningur fyrirtækisins um orkusölu til álvers Norðuráls á Grundartanga muni skila sér í „umtalsverðri hækkun“ á tekjum. Þetta segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. Tilkynnt var um það í dag að samningur hafi náðst um að framlengja samning um sölu á 161 megawöttum af orku til Norðuráls, sem renna átti út í lok október 2019, til loka árs 2023. Endurnýjaður samningur er tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur í stað álverðstengingar í gildandi samningum.
Samningur Norðuráls við Landsvirkjun um orkukaup er upprunalega frá árinu 1997 og innihald hans, meðal annars verðið sem fyrirtækið hefur greitt fyrir orkuna, hefur verið trúnaðarmál. Ketill Sigurjónsson, sérfræðingur í orkumálum, hefur hins vegar unnið greiningar á raforkuverði til álvera á Íslandi þar sem fram kemur að Norðurál greiði lægsta raforkuverðið til Landsvirkjunar. Samkvæmt greiningum hans hefur lágt verð til Norðuráls og Fjarðaáls, sem rekur álver á Reyðarfirði, dregið niður meðalverð á raforku til álvera hér á landi niður í rúmlega 26 Bandaríkjadali á megawattstund.
Hörður segir að hann geti ekki svarað því hversu miklum viðbótartekjum nýi samningurinn muni skila þegar hann tekur gildi í nóvember 2019. Það ráðist af því hvernig orkuverð í Evrópu þróist og hvernig álverð þróist. Hörður bindur þó vonir við að hækkunin verði umtalsverð og bendir á að meðalverð á raforku á Nord Pool markaðnum undanfarin tíu ár hafi verið um 50 dalir á megawattstund.
Viðræður Norðuráls og Landsvirkjunar hafa staðið yfir um nokkurt skeið og að sögn Harðar hefðu þær ekki mátt standa mikið lengur áður en að leita hefði þurft annarra leiða við að koma umræddri orku í verð. „Það hefði mögulega verið hægt að ræða saman í nokkrar mánuði í viðbót. Fram á mitt þetta ár. Ekki mikið lengur. En það var eindreginn vilji hjá báðum aðilum að halda samstarfinu áfram og því kom ekki til greina að ræða við aðra aðila á meðan að á samningsviðræðunum stóð.“
Sagði stjórnendur Norðuráls beita öllum aðferðum
Hörður hélt blaðamannafund í desember síðastliðnum sem var nokkuð óvenjulegur. Í raun fordæmalaus. Í máli Harðar á þeim fundi kom meðal annars fram að hann teldi Norðurál, og eigendur þess, vera að beita öllum mögulegum meðulum til að halda verðinu til sín sem lægstu. Í lýsingum sínum á þeim samningaviðræðum sem voru í gangi við Norðurál skóf hann ekkert undan í lýsingum á skoðun sinni á ástæðum.
Hörður sagði að umræða um raforkusamning Landsvirkjunar og Rio Tinto-Alcan, sem þá var fyrirferðamikil, hefði verið dregna inn í þá kjaradeilu sem þá stóð yfir innan Rio Tinto-Alcan af öðrum en deiluaðilum. Spurður um hverjir það væru sagði Hörður: „Stjórnendur Norðuráls, þeir telja að þetta styðji þeirra málstað. Þegar þú ert að semja um tugmilljarða hagsmuni þá beita aðilar öllum aðferðum til þess að styrkja sinn málstað. Það er ekkert óeðlilegt. Hvort þeir séu að ganga lengra núna en áður verða kannski aðrir að meta, en ég tel þessa tengingu mjög óheppilega og mér finnst hún mjög ósanngjörn gagnvart Rio Tinto.“
Aðspurður um hvort þessi blaðamannafundur hafi breytt einhverju í samningsviðræðum milli Landsvirkjunar og Norðjuráls segir Hörður að það hafi fyrst og fremst verið sú vinna sem farið hafi fram gagnvart því að reyna að hækka raforkuverð sem hafi skipt máli. „Það ásamt skýrum stuðningi stjórnar og stjórnvalda við stefnu fyrirtækisins er lykillinn að því að Landsvirkjun nær að endursemja á hagstæðari kjörum.“