Davíð Oddsson, sem býður sig fram til forseta Íslands, segir að hann muni ekki þiggja laun verði hann kosinn forseti. Davíð nýtur eftirlauna vegna fyrri starfa sinna í stjórnmálum sem hann segir að séu um 40 prósent af forsetalaunum. Honum finnst ekki við hægi að forseti sé með 2,5 milljónir króna á mánuði, heldur mun nær að hann sé með um eina milljón króna. „Þá finnst mér við hæfi að þjóðin fái mig frítt.“ Þetta kom fram í þættinum Eyjunni á Stöð 2.
Í þættinum gagnrýndi Davíð Guðna Th. Jóhannesson, sem mælist með tæplega 70 prósent fylgi í könnunum um hver eigi að vera næsti forseti, harðlega fyrir ýmsar skoðanir sínar. Davíð sagði að Guðni Th. hafi þau sjónarmið gagnvart stjórnarskránni að hann vilji kollvarpa henni, sem Davíð finnst rangt. Davíð sagði einnig að Guðni Th. hefði barist fyrir Icesave-samningunum með sömu rökum og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og þar hafi hann verið á röngu róli.
Guðni hefur þessi sjónarmið gagnvart stjórnarskránni, vill kollvarpa henni, sem mér finnst rangt. Guðni barðsit fyrir Icesave með sömu rökum og Jóhönnustjórnin. Hann var á röngu róli blessaður í þessu máli. Guðni Th. hefði meðal annars talað niður Þorskastríðin sem hetjudáð „þegar hann var að vinna að því að fá Icesave samþykkt.“
Davíð sagði þjóðina vita allt um sig, en ekkert um Guðna Th., sem hefði sagst vera með nýja sýn á embætti forseta en ekki útskýrt það neitt frekar. Davíð sagðist hafa útfærðar hugmyndir um að forsetinn eigi að vera meira heima fyrir. Hann vilji fækka ferðalögum um helming, draga úr öllu prjáli og þiggja ekki laun. Með því myndi sparast umtalsverður kostnaður og þá fjármuni væri hægt að nota til að bjóða fólki til Bessastaða.
Björn Ingi Hrafnsson, umsjónarmaður Eyjunnar, spurði Davíð einnig út í það þegar Davíð var ýtt úr úr Seðlabankanum í kjölfar hrunsins. Davíð sagði að ef skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis sé lesinn þá komi á daginn að „það var Seðlabankinn einn sem stóð vaktina.“ Flestir sem vitni í skýrsluna hafi hins vegar ekki lesið hana. „Niðurstaðan er sú að Seðlabankinn sá þetta [hrunið] fyrir, hann varaði við og ekki veldur sá sem varar.“ Davíð gagnrýndi enn fremur þá sem hafa sagt að hann hafi gert Seðlabanka Íslands tæknilega gjaldþrota með hinum svokölluðu ástarbréfaviðskiptum við bankanna. Aðspurður sagði hann til að mynda að hagfræðingarnir Gauti Eggertsson og Jón Steinsson, sem báðir starfa við háskóla í Bandaríkjunum sem eru á meðal þeirra virtustu í heimi, hafa talað eins og vitleysinga þegar þeir sögðu að Seðlabanki Íslands hefði orðið tæknilega gjaldþrota.
Davíð sagði enn fremur að menn sem dæmdir hafa verið í Hæstarétti fyrir glæpi hafi haft menn á launum við að koma sökinni á hruninu yfir á sig. Þar vísaði hann væntanlega í stjórnendur föllnu bankanna, en nefndi þá þó ekki sérstaklega.
Davíð mældist með 17 prósent fylgi í síðustu skoðanakönnum um fylgi þeirra sem bjóða sig fram til forseta. Guðni Th. hefur mælst með tæplega 70 prósent fylgi í þremur skoðanakönnunum í röð.
Það skal tekið fram að Davíð þáði ekki boð Kjarnans um að koma í viðtal vegna forsetaframboðs síns.