Breska ríkisútvarpið BBC ætlar að leggja niður matarvefsíðu sína, iWonder þjónustuna, News Magazine og Newsbeat, til þess að spara fimmtán milljónir punda, sem eru um fimmtán prósent af kostnaði við ritstjórnina. James Harding, yfirmaður BBC News, tilkynnti um þetta í morgun.
Í síðustu viku kom út skýrsla stjórnvalda um framtíð BBC, og tillögur BBC News koma í kjölfar þeirrar skýrslu. Skýrslan er tillaga stjórnvalda um þjónustusamning við BBC, og inniheldur áform stjórnvalda fyrir næstu ellefu árin í rekstri ríkisútvarpsins. Talsverðar breytingar verða gerðar á rekstrinum gangi áformin eftir, en þó stendur til að halda áfram afnotagjöldum hjá BBC og láta þau fylgja verðlagi.
BBC Food, matarsíðan, hefur verið mjög vinsæl og matreiðslumenn í Bretlandi mótmæla lokuninni. Þar eru ellefu þúsund uppskriftir, en stefnt er að því að varðveita þær og flytja annað. News Magazine tímaritinu verður hætt sem og Newsbeat síðunni. Áfram á að bjóða upp á ferðafréttir en ferðasíðunni BBC Travel verður lokað. Þá verður dregið úr virkni á samfélagsmiðlum og í stafrænu útvarpi og dregið úr annarri dagskrárgerð sem ekki er talið kjarnastarfsemi miðlanna.
Harding segir við BBC að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð fréttastöðvarinnar BBC News Channel, en að ekki komi til greina að henni verði lokað. Harding hefur lagt fram sex möguleika sem stjórn BBC velur um í júlí.