1. Ástþór Magnússon Wium fæddist í Reykjavík þann 4. ágúst árið 1953. Eiginkona hans heitir Natalia Wium og er fædd í Moskvu í Rússlandi árið 1975. Þau kynntust á styrktartónleikum fyrir Mæðrastyrksnefnd á Gauknum í Reykjavík jólin 2001 og giftu sig í Þingvallakirkju rúmum tveimur árum síðar. Ástþór á eina dóttur frá fyrra hjónabandi, tvö barnabörn og það þriðja á leiðinni.
2. Árið 1979 stofnaði Ástþór fyrsta kreditkortafyrirtæki landsins, Kreditkort hf. Hann hefur meðal annars unnið sem ljósmyndari og getið sér gott orð sem slíkur. Hann stofnaði alþjóðasamtökin Friður 2000 árið 1995 með alheimsfrið að markmiði.
3. Ástþór heldur reglulega framboðsfundi sem streymt er í beinni útsendingu á Facebook síðu hans undir kjörorðinu Virkjum Bessastaði.
4. Hann vill að á Íslandi rísi heimsmiðstöð lýðræðisþróunar, friðarmála og stjórnstöð alþjóðlegrar friðargæslu. Nái hann kjöri mun hann beita sér fyrir því sem forseti.
5. Árið 1998 var Ástþór meðal þeirra sem stofnuðu Lýðræðishreyfinguna, þverpólitísk samtök sem vinna að aukinni lýðræðisþátttöku almennings. Hann hefur aldrei tilheyrt stjórnmálaflokki og aldrei starfað með neinum þeirra.
6. Þetta er fimmta tilraun Ástþórs til forsetaframboðs. Hann bauð sig fyrst fram árið 1996 og kynnti hann þá hugmyndir sínar með bókinni Virkjum Bessastaði, sem dreift var inn á öll heimili í landinu. Fjórum árum síðar, árið 2000, ætlaði hann aftur fram, en framboð hans var dæmt ógilt þar sem nægilegan fjölda meðmælenda vantaði. Í næstu kosningum á eftir, árið 2004, bauð hann sig einnig fram, en Ólafur Ragnar var einn í framboði árið 2008 og var því sjálfkjörinn. Ástþór ætlaði að taka slaginn aftur að fjórum árum liðnum, árið 2012, en framboð hans var einnig dæmt ógilt þar sem ekki fékkst lögboðið vottorð yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.
7. Ástþór mætti í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur útataður í tómatsósu í apríl 2003 til að mótmæla stríðinu í Írak. Ári síðar, í forsetakosningunum 2004, var Ástþór ósáttur með þá litlu athygli sem fjölmiðlar höfðu veitt honum og færði því Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra tómatsósu.
8. Ástþór hefur verið að mælast með í kring um eitt prósenta fylgi í skoðanakönnunum undanfarið.
9. Hann er kristinn og er skráður í Óháða söfnuðinn.
10. Ástþór segist ítrekað hafa verið sannspár um það sem hann kallar stríðsæsingastefnu Bandaríkjanna og að hann hafi spáð fyrir um hryðjuverkin 11. september 2001 í sjónvarpsviðtali á Stöð 2 mörgum mánuðum áður en þau gerðust.
Framboðssíða Ástþórs - Facebooksíða Ástþórs