Frumvarp til laga um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) hefur verið í kostnaðarmati og vinnslu á milli fjármála- og menntamálaráðuneytisins í tæpa tvo mánði. Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu stóð til að afgreiða frumvarpið í síðasta mánuði, en ekkert hefur bólað á því. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á löggjöf um LÍN og þess vegna tekur svo langan tíma að ljúka yfirferð, segir upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins við Kjarnann.
Afgangur í ársreikningi
LÍN var rekinn með sjö milljarða króna afgangi á síðasta rekstrarári, er fram kemur í Fréttablaðinu í dag, en Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, segir þar að sjóðurinn sé félagslegur jöfnunarsjóður og ekki eiga að vera rekinn með hagnaði. Ef frá er dregið framlag ríkissjóðs til sjóðsins sé tap á rekstrinum.
„Í ársreikningi LÍN kemur fram að halli er á rekstri sjóðsins sem nemur 1,3 milljörðum króna án ríkisframlags í samanburði við níu milljarða króna halla á árinu 2014,“ segir Hrafnhildur Ásta. „Hér er vert að hafa í huga að ríkið styrkir námsmenn á námslánum að meðaltali um 47 prósent af útlánum sjóðsins á hverju ári,“ er haft eftir Höllu í Fréttablaðinu.
Námsmenn erlendis gagnrýna breytingar
Úthlutunarreglum til námsmanna erlendis hefur verið breytt, sem fela í sumum tilvikum í sér allt að 20 prósenta lægri framfærslu frá sjóðnum til þeirra. Þessar breytingar hafa þó ekki með frumvarpið að gera.
Hjördís Jónsdóttir, fulltrúi Samtaka íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) í stjórn LÍN, segir í Fréttablaðinu að á sama tíma og sjóðurinn skilar afgangi sé verið að skera úthlutanir niður.
„Við hjá SÍNE höfum mótmælt því harðlega að verið sé að skerða framlag til nema erlendis. Til að mynda skrifaði ég ekki undir nýjar úthlutunarreglur og okkur finnst við ekki hafa fengið nægan stuðning frá stúdentum hér á landi því fulltrúar stúdenta samþykktu úthlutunarreglurnar,“ segir Hjördís. „Við teljum sjóðinn vel geta staðið undir öflugum útlánum til námsmanna erlendis.“