Embættismenn á vegum ríkisins og eru á launaskrá þess, þar með taldir ráðherrar í ríkisstjórn og forseti Íslands, geta ekki afsalað sér launum frá ríkinu. Þetta staðfestir Fjársýsla ríkisins. Það sama segir Gunnar Björnsson, skrifstofustjóri Kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Gunnar segir að laun embættismanna á vegum ríkisins séu lögákveðin og ríkinu beri að greiða þau til viðkomandi. Það sé bundið í lög og stjórnarskrá.
„Starfsmenn þurfa að standa skil á sköttum og skyldum og telja fram launin,” segir Gunnar í samtali við Kjarnann. „En hvað starfsmenn ákveða svo að gera við þau, er þeim algjörlega frjálst.”
Davíð Oddsson, forsetaframbjóðandi og ritstjóri Morgunblaðsins, hefur sagst ætla að afsala sér forsetalaunum nái hann kjöri. Hann ætli að halda sig við eftirlaunagreiðslur sínar, sem séu um það bil 40 prósent af launum forseta.
Ögmundur afsalaði sér samt launum
Ögmundur Jónasson, fráfarandi þingmaður Vinstri grænna, segist hafa afsalað sér ráðherralaunum þegar hann varð heilbrigðisráðherra árið 2009 og einnig þegar hann tók við embætti innanríkisráðherra árið 2010 og fram til ársins 2013. Hann þáði á þeim tíma einungis þingfararkaup fyrir störf sín.
Hins vegar, eins og áður segir, mega embættismenn ríkisins ekki afsala sér launum og eiga í raun ekki að geta það. Lögum samkvæmt ber ríkinu að greiða þeim sem sinnir starfi á vegum þess laun. Viðkomandi hefur ekki val hvort hann þiggi þau laun eða ekki, því á launagreiðslunum eru aðrar kvaðir.
Launaleysi geti haft áhrif á skattlagningu
Embættismenn ríkisins þurfa að telja tekjur sínar fram til skatts og greiða í lífeyrissjóð, sem og aðrir. Gunnar segir það geta haft áhrif á heildarskattlagningu þegar metið er hvort viðkomandi embættismenn hafi aðrar tekjur. Eðli málsins samkvæmt séu það réttindi og skyldur launagreiðanda og launþega að fólk þiggi laun samkvæmt kjarasamningum.
„Það er ekki alveg svona einfalt að menn geti bara afsalað sér launum,” segir hann. „Laun eru endurgjald fyrir vinnu. Þegar þú færð greidd laun verður þú að vinna á móti og öfugt.”