Donald Trump segist sjá eftir ýmsu í kosningabaráttu sinni til þess að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins. Engu að síður segir hann að ef hann hefði ekki komið fram eins og hann gerði, þá hefði hann líklega ekki komist svona langt, en fátt getur komið í veg fyrir að hann verði frambjóðandi flokksins.
Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali Megyn Kelly á Fox News við Trump í gærkvöldi. Kelly og Trump hafa átt í miklum deilum undanfarna mánuði. Deilurnar hófust eftir að Kelly stjórnaði umræðum í kappræðum milli frambjóðenda í ágúst síðastliðnum. Þá spurði hún hann um ummæli sín um konur og í kjölfarið sagði hann að hún hefði ekki verið sanngjörn gagnvart honum. „Það sást að það kom blóð út úr augunum á henni, blóð kom út úr henni – hvar sem er.“
Einnig endurdeildi Trump ummælum um Kelly á Twitter, þar sem hún var kölluð bimbo, sem á íslensku merkir gála. Kelly spurði Trump hvers vegna hann hefði gert það og hann svaraði: „Gerði ég það? Ó. Afsakaðu mig.“ Hann bætti því svo við að Kelly hlyti þó að hafa verið kölluð mun verri nöfnum.
Trump sagði í viðtalinu að hann hefði vissulega getað gert ýmislegt öðruvísi en hann gerði í þessari níu mánaða kosningabaráttu. „Ég hefði getað notað öðruvísi orðalag, en yfir það heila verð ég að vera mjög ánægður með niðurstöðuna.“
Hann vildi ekki segja frá því hvaða hlutum hann sæi eftir í baráttunni. „Ef ég hefði ekki hagað mér með þeim hætti sem ég hef gert, þá held ég að ég hefði ekki náð árangri.“ Jafnframt sagði hann að ef hann nær ekki kjöri sem forseti Bandaríkjanna muni hann líta svo á að ferlið hafi verið „algjör og fullkomin sóun á tíma, orku og peningum.“