Umboðslaun, sem fengin eru erlendis frá, á að telja fram á skattframtali hérlendis. „Engu máli skiptir hvort fjármunirnir séu greiddir beint til Íslands eða geymdir erlendis á bankareikningi. Skattskyldan er fyrir hendi,“ segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri í svari við fyrirspurn Kjarnans um mál af þessu tagi almennt.
Fram kom í Kastljósi í fyrradag að fjölskylda Ingvars Helgasonar, sem stofnaði og átti samnefnt bílaumboð, hafi lengi leitað að varasjóði sem hann hafi sagt þeim frá. Varasjóðurinn hafi verið þannig tilkominn að Ingvar hafi ávallt sett inn umboðslaun frá erlendum bílaframleiðendum inn á bankareikninga erlendis. Leitin að þessum sjóði hófst skömmu eftir að Ingvar féll frá en kom aldrei í leitirnar. Miklar erfðadeilur standa nú yfir milli erfingjanna.
Meðal þess sem hluti afkomenda og erfingja Ingvars og konu hans, Sigríðar Guðmundsdóttur, hafa spurt sig að er hvers vegna féð var geymt erlendis og hvort ekki hafi átt að gefa það upp til skatts hér á landi. Þau segja einnig að bróðir þeirra, Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hafi viðurkennt fyrir þeim að varasjóðurinn sé í félagi í hans eigu á Panama.
Umboðsþóknun skattskyld á Íslandi
Allar tekjur sem Íslendingar, og aðrir sem hafa fulla skattskyldu á Íslandi, afla eru skattskyldar hér á landi nema þær hafi verið skattlagðar erlendis. Þá þarf að uppfylla skilyrði fyrir því, segir Skúli Eggert. Umboðsþóknanir og svipaðar greiðslur sem félög eða fyrirtæki hérlendis fá í útlöndum á greiða skatt af hérlendis nema það hafi verið gert erlendis.
„Dæmi: Skattaðili hérlendis, oftast fyrirtæki eða félag, sem kaupir vörur erlendis til endursölu hér á landi og fær greiðslu umboðslauna samhliða ber að telja tekjurnar fram á skattframtali sínu. Við vörukaup erlendis er stundum veittur afsláttur í því formi að ákveðið hlutfall innkaupanna er endurgreiddur. Sú endurgreiðsla er skattskyld sem rekstrartekjur viðkomandi,“ segir Skúli Eggert við Kjarnann.
Segja Júlíus hafa viðurkennt að hafa sýslað með sjóðinn
Sem fyrr segir deila erfingjarnir nú um dánarbú foreldra sinna, og það sem ekki er í dánarbúinu, varasjóðinn. Tvö systkini Júlíusar Vífils, og systursonur hans, segja öll að Júlíus hafi viðurkennt fyrir þeim, eftir uppljóstranir um að hann eigi aflandsfélag í Panama, að þessi varasjóður foreldranna sé í því félagi. Júlíus hefur ekki svarað ásökunum þeirra beint en hefur sagt að margar rangfærslur hafi verið í Kastljóssþættinum um málið og að allt tal um að hann hafi sölsað undir sig annarra manna fé sé rógur og illmælgi. Hann hefur sakað systkini sín á móti um að hafa dregið sér tugi milljóna af reikningum móður þeirra.