Óháði frambjóðandinn Alexander Van der Bellen sigraði í seinni umferð forsetakosninganna í Austurríki, sem fram fóru í gær. Hann hafði betur en frambjóðandi hins hægri- og þjóðernissinnaða Frelsisflokks, Norbert Hofer. BBC greinir frá þessu.
Hofer hafði verið spáð sigrinum og hafði betur eftir kosningarnar í gær en þegar utankjörfundaratkvæði höfðu verið talin í dag kom í ljós að Van der Bellen náði forskoti. Hann hefði annars orðið fyrsti þjóðhöfðingi Evrópusambandsríkis sem er langt til hægri.
Hofer hafði verið með 51,9% í kosningunum og Van der Bellen 48,1%. En 750 þúsund póstlögð atkvæði höfðu úrslitavaldið. Kosningaúrslitin þykja hafa sýnt skiptinguna í austurrísku samfélagi, Van der Bellen hafði betur í níu af tíu stærstu borgunum á meðan Hofer hafði yfirburði á strjálbýlum svæðum.
Van der Bellen var óháður en var studdur af Græningjaflokknum. Hann er mjög fylgjandi Evrópusambandinu og kosningabaráttan markaðist af því, á meðan Hofer hafði byggt kosningabaráttu sína að miklu leyti á andúð á Evrópusambandinu og ótta fólks við fjölgun hælisleitenda.
Þetta var í fyrsta skipti frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar sem hvorki Jafnaðarmannaflokkurinn né Þjóðarflokkurinn í Austurríki áttu fulltrúa í seinni umferð forsetakosninga í landinu. Þeir flokkar eru hefðbundnir flokkar og sitja nú saman í ríkisstjórn.
Forsetaembættið er að mestu leyti táknrænt en forseti getur þó leyst upp neðri deild þingsins og þannig þvingað fram kosningar.