Ólafur Ólafsson, einn aðaleigandi Samskipa og einn stærsti hluthafi Kaupþings, hefur verið lagður inn á Landspítalann eftir að þyrla í hans eigu brotlenti á Hengilsvæðinu í gærkvöld. Talið er að hann sé með meiðsl á hrygg og hálsi, samkvæmt mbl.is.
Tilkynning um að þyrla hefði hrapað við Nesjavelli barst um klukkan 19:45 í gær og voru þá björgunarsveitir, sjúkraflutningamenn og lögregla kallaðar á vettvang. Farþegum tókst að hringja í Neyðarlínuna úr þyrlunni, skömmu eftir að neyðarboð var sent út.
Um borð í þyrlunni voru auk Ólafs og flugmannsins, þrír erlendir viðskiptafélagar Ólafs og var hann með þá í útsýnisflugi.
Ólafur var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að Al Thani málinu og er nýkominn af Kvíabryggju yfir á Vernd, eins og aðrir hlutaðeigandi.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir í svari sínu til Kjarnans að hann geti ekki tjáð sig um einstök mál, en reglar á Vernd um helgar sé sú að menn eigi að vera komnir inn fyrir klukkan 23:00. „Vistmenn eiga því frjálsan tíma yfir daginn um helgar. Flestir nýta þann tíma til að vera með fjölskyldu og vinum eða sinna frístundum,“ segir Páll.