Davíð Oddsson nýtur stuðnings 22 prósent kjósenda samkvæmt nýrri könnun sem stuðningsmenn hans fengu Gallup til að gera. Það er meira en þau 18 prósent sem hann mældist með í könnun MMR sem birt var fyrr í dag. Guðni Th. Jóhannesson mælist sem fyrr með langmest fylgi,eða 57 prósent. Það er þó minna en hann var með samkvæmt könnun MMR þar sem fylgið við hann mældist með tæplega 66 prósent fylgi. Andri Snær Magnason mældist með tæplega ellefu prósent fylgi sem er nánast það sama og hann mældist með í könnun MMR. Þá sögðust 5,4 prósent ætla að kjósa Höllu Tómasdóttur en aðrir frambjóðendur mældust með undir tveggja prósenta fylgi.
Könnunin sem stuðningsmenn Davíðs létu gera var netkönnun gerð dagana 19. til 25. maí. Úrtak var 1.429 og svarhlutfall 57,2 prósent. Þrjú prósent sögðu að þeir muni skila auðu en 12,4 prósent tóku ekki afstöðu.
Könnun MMR var hins vegar gerð daganna 12. til 20. maí.