Vinnuhópur sem skipaður var til að kanna mögulega tengingu Íslands og Bretlands í gegnum sæstreng mun ekki skila af sér niðurstöðum sínum fyrr en í lok júní. Þegar hópurinn var skipaður, í kjölfar tvíhliðafundar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þáverandi forsætisráðherra með Davið Cameron þann 28. október 2015, var greint frá því í fréttatilkynningu að hópurinn ætti að skila af sér niðurstöðu innan sex mánaða, eða fyrir apríllok.
Samkvæmt svörum frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, sem leiðir vinnuna fyrir Íslands hönd, hafa skilin nú dregist um tvo mánuði. Hópurinn hefur það hlutverk að finna út verð og magn raforku sem hægt væri að selja í gegnum sæstreng frá Íslandi til Bretlands. DV greindi frá því í nóvember að Benedikt Gíslason sé fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins í íslensku verkefnastjórninni sem hafi það verkefni að eiga í viðræðunum við Breta. Þar sitji einnig Benedikt Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og fyrrverandi efnahagsráðgjafi Sigmundar Davíðs. Auk þeirra sitja í verkefnastjórninni þau Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Þórður Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Landsnets, og Ingvar Már Pálsson, skrifstofustjóri iðnaðar- og orkumála í atvinnuvegaráðuneytinu.
Í tilkynningu forsætisráðuneytisins frá október í fyrra sagði að Sigmundur Davíð hefði fyrirvara um lagningu sæstrengs. „Forsenda fyrir mögulegri lagningu sæstrengs í framtíðinni væri að raforkuverð til heimila og fyrirtækja hækki ekki. Eðlilegt er þó að eiga viðræður við Breta um þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning sæstrengs á milli landanna gæti haft í för með sér.“
Katrín Lilja Jónsdóttir, meistaranemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands, skrifaði ítarlega fréttaskýringu um mögulegan sæstreng milli Íslands og Bretlands á Kjarnann í mars síðastliðnum.