Að minnsta kosti tvær konur sem voru að mótmæla brottvísun flóttamanns til Svíþjóðar voru um borð í vél Icelandair sem flytja átti manninn til Stokkhólms í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá farþega í vélinni mótmæltu þær brottvísun mannsins með því að ávarpa aðra farþega og biðla til þeirra um að styðja flóttamanninn og mannréttindi á Íslandi. Fjölmennt lið lögreglu var kallað á staðinn og konurnar tvær fjarlægðar úr flugvélinni. Þegar hafa orðið umtalsverðar tafir á því að hún fari í loftið. Flóttamaðurinn er um borð í vélinni í lögreglufylgd.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er nú verið að rannsaka farþegalista til að athuga hvort um borð séu fleiri mótmælendur.
Samtökin No Borders sendu frá sér fréttatilkynningu í gær vegna þess sem þau kölluðu ólöglega brottvísun fórnarlambs Boko Haram. Sá átti að verða sendur til Stokkhólms með flugi í morgun og því allar líkur á því að mótmælin sem nú standa yfir tengist sama máli.
Þar sagði að flóttamaðurinn hafi flúið hryðjuverkasamtökin Boko Haram í Nígeríu, sem vilji hann dauðan. Hann hafi komið til Íslands frá Svíþjóð fyrir fjórum árum síðan og hafi byggt upp sitt líf á Íslandi en hafi enn ekki fengið umsókn sína um stöðu flóttamanns skoðaða vegna tilvísana í Dyflinnarreglugerðina.