Póst- og fjarskiptastofnun hefur samþykkt beiðni Íslandspósts um hækkun á gjaldskrá fyrirtækisins fyrir bréf sem vega 0-50 grömm. Ástæðan er sú að sífellt færri notast við bréfasendingar, og þá hafa launahækkanir hjá fyrirtækinu, vegna umsaminna hækkana í kjarasamningum, áhrif á grunnrekstur fyrirtækisins.
Gert er ráð fyrir að hækkunin taki gildi 1. júní næstkomandi.
Hækkanirnar eru eftirfarandi:
- A: hækkar úr 170 kr. í 175 kr.
- B: hækkar úr 155 kr. í 160 kr.
- AM: hækkar úr 130 kr. í 135 kr.
- BM: hækkar úr 110 kr. í 114 kr.
Rekstur Íslandspóst hefur gengið frekar erfiðlega síðustu ár, en tap hefur verið á rekstrinum árin 2013 og 2014, samkvæmt birtum ársreikningum félagsins. Tapið var 42 milljónir 2014 en 118 milljónir 2013.
Í inngangsorðum forstjórans, Ingimundar Sigurpálssonar, í ársskýrslu fyrir árið 2014 segir að hryggjarstykkið í rekstri Íslandspósts sé dreifingarnetið um allt land. Það er nú í meira mæli en áður borið uppi með pakkasendingum. „Dreifingarnetið er í minnkandi mæli borið uppi af bréfasendingum og í vaxandi mæli af pakkasendingum. Árituðum bréfum hefur fækkað um 51 prósent frá árinu 2000 en á sama tíma hefur heimilum og fyrirtækjum og þar með póstlúgum fjölgað umtalsvert. Þannig eykst kostnaður við dreifingarnetið jafnhliða því sem hann dreifist á færri bréf ef annað kæmi ekki til, svo sem fjölgun pakkasendinga og hagræðing í rekstri. Íslandspóstur hefur stofnað og keypt fyrirtæki í tengdum og virðisaukandi rekstri og gerst umboðsaðili fyrir nokkur sölu- og þjónustufyrirtæki. Tilgangur þess er að ná betri nýtingu á þeim rekstrarþáttum sem grunnstarfsemi Íslandspósts er byggð á. Sá rekstur er að mestu utan skilgreindrar alþjónustu Íslandspósts og skilaði hann félaginu um 1.700 milljóna króna tekjum og um 240 milljóna króna hagnaði á árinu 2014,“ segir Ingimundur.
Tekjur af hefðbundinni póstþjónustu námu 6,2 milljörðum króna árið 2014, en aðrar tekjur, þá er frá rekstri sem ekki tilheyrir póstþjónustunni, námu rúmlega einum milljarði. Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatt var jákvæð um 479 milljónir króna.
Íslenska ríkið er eigandi Íslandspósts.