Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á tilraun til að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, og öðrum manni, er lokið. Málið er komið til héraðssaksóknara þar sem ákvörðun verður tekin um hvort ákært verður í málinu eða ekki.
Systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttir voru handteknar í maí í fyrra vegna tilraunar sinnar til að kúga fé út úr Sigmundi Davíð. Þær sendu fjárkúgunarbréf, þar sem þess var krafist að hann greiddi þeim átta milljónir króna. Peningana átti hann að skilja eftir á tilteknum stað syðst í Hafnarfirði, en það var þar sem systurnar voru handteknar.
Skömmu síðar kom upp annað mál, þar sem fyrrverandi samstarfsmaður Hlínar kærði systurnar einnig fyrir fjárkúgun. Hann sagði systurnar hafa hótað að kæra hann fyrir nauðgun ef hann greiddi þeim ekki 750 þúsund krónur, sem hann gerði. Hann kærði þær og þessi tvö fjárkúgunarmál bíða nú ákvörðunar um ákæru. Hlín lagði svo fram kæru á hendur manninum fyrir nauðgun skömmu síðar.
Sögðust hafa upplýsingar sem kæmu forsætisráðherra illa
Upplýsingarnar í fjárkúgunarbréfinu áttu að koma Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra illa, og hótað var að gera þær opinberar í bréfinu sem stílað var á eiginkonu hans. Þessar upplýsingar snérust um að Sigmundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka. Björn Ingi, aðaleigandi Pressunnar, er með sterk tengsl við Framsóknarflokkinn. Hann starfaði á árum áður sem aðstoðarmaður þáverandi forsætisráðherra flokksins, Halldórs Ásgrímssonar, og sat fyrir hönd hans í borgarstjórn Reykjavíkur um skeið. Björn Ingi tilkynnti hins vegar að hann væri hættur afskiptum af stjórnmálum í byrjun árs 2008 og hefur síðan þá starfað við fjölmiðla.
Vísir greindi fyrst frá því að upplýsingarnar hefðu átt að tengjast MP banka. Þar var rætt við Arnar Ægisson, framkvæmdastjóra Pressunnar, um rúmlega 60 milljón króna hækkun á skuldum félagsins á árinu 2013. Þar segir hann að líklega sé um að ræða yfirfærslu á yfirdrætti sem var í eignarhaldsfélaginu Vefpressunni ehf. Hann staðfestir að yfirdrátturinn sé hjá MP banka. Arnar hafnaði strax öllum tengslum Pressunnar við forsætisráðherra. Hann hafnaði einnig að lánafyrirgreiðsla MP banka hafi verið fengin að tilstillan Sigmundar Davíðs eða aðilum tengdum honum.
Fyrst um sinn voru sagðar fréttir af því að kúgunin hafi snúist um upplýsingar um að Sigmundur Davíð hefði tengst fjármögnun á kaupum Björns Inga á DV. Björn Ingi setti inn færslu á Facebook þriðjudaginn 2. júní. Þar sagði hann: „Ég er harmi sleginn yfir fregnum dagsins. Hugur minn er hjá þeim sem um sárt eiga að binda vegna þessa máls. Forsætisráðherra fjármagnaði ekki kaup Pressunnar á DV. Hann á ekki hlut í blaðinu. Að öðru leyti óska ég eftir því að tekið sé tillit til þess að hér er mannlegur harmleikur á ferðinni og að aðgát skuli höfð í nærveru sálar.“
Sigmundur Davíð sendi frá sér yfirlýsingu sama dag þar sem sagði m.a.: „ég hef engin fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson, né hef ég komið að kaupum Vefpressunnar á DV á nokkurn hátt.“ Síðar setti forsætisráðherra svo inn stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann ítrekaði að hann hefði „ekki nokkra einustu aðkomu að eigendaskiptum á DV og veit ekkert um aðdraganda og gang þeirra mála.“