Oddný G. Harðardóttir var kjörinn nýr formaður Samfylkingarinnar í gær. Hún hlaut 59,9 prósent af þeim 3.877 atkvæðum sem greidd voru í prófkjörinu í allsherjarkosningu skráðra félagsmanna. Þegar Árni Páll Árnason var kjörinn formaður flokksins í allsherjarkosningu árið 2013 greiddu 5.589 manns atkvæði. Því fækkaði þeim sem tóku þátt í formannskosningum Samfylkingarinnar um 1.713 á milli allsherjarkosninganna, eða um 30 prósent. Í sigurræðu sinni sagði Oddný: „Brettum upp ermar kæru félagar, það er ekki eftir að neinu að bíða. Hrindum í framkvæmd 130 daga áætlun fyrir kosningar. Við erum til í slaginn“.
Magnús Orri Schram hlaut næst flest atkvæði í formannskjörinu, Helgi Hjörvar kom þar á eftir og fæst atkvæði frambjóðenda hlaut Guðmundur Ari Sigurjónsson.
Logi Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar á Akureyri, var kjörinn varaformaður flokksins. Sú kosning var ekki allsherjarkosning heldur tóku einungis landsfundarfulltrúar þátt í henni. Logi fékk 106 atkvæði eða 48 prósent þeirra sem féllu. Það dugði honum til að sigra þær Margréti Gauju Magnúsdóttur (66 atkvæði) og Semu Erlu Serdar (43 atkvæði) í baráttunni um varaformannsstólinn.
Samkvæmt nýjustu kosningaspá Kjarnans mælist fylgi Samfylkingarinnar 7,6 prósent, sem er töluvert fyrir neðan kjörfylgi flokksins frá árinu 2013, þegar hann fékk 12,9 prósent. Það var þó langversta kosninganiðurstaða Samfylkingarinnar í sögu hennar.