Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir næstu Alþingiskosningar. Hún greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni í kvöld.
Ragnheiður er annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, næst á eftir Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins.
Elín Hirst, sem skipaði fimmta sæti flokksins í sama kjördæmi í síðustu kosningum, tilkynnti svo nú í kvöld að hún hefði ákveðið að sækjast eftir öðru sætinu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Hún greinir frá því að prófkjörið verði haldið í lok ágúst eða byrjun september.
Elín þakkar Ragnheiði fyrir „heiðarleika, stefnufestu og dugnað í sínum störfum“ í fréttatilkynningu sem hún sendi frá sér.
Ef Ragnheiður er hætt í stjórnmálum verður hún tíundi sitjandi þingmaðurinn sem ákveður að hætta á þingi. Áður hafði samflokksmaður hennar Einar K. Guðfinnsson greint frá því að hann hygðist hætta. Það höfðu einnig Brynhildur Pétursdóttir og Róbert Marshall í Bjartri framtíð tilkynnt, sem og Frosti Sigurjónsson, Páll Jóhann Pálsson og Sigrún Magnúsdóttir, þingmenn Framsóknarflokksins, Katrín Júlíusdóttir og Kristján Möller, þingmenn Samfylkingarinnar og Ögmundur Jónasson, þingmaður VG.
Minnst fjórir þingmenn til viðbótar hafa ekki ákveðið hvort þeir hyggjast reyna að halda áfram á þingi eða ekki. Það eru þau Guðmundur Steingrímsson, Haraldur Einarsson, Karl Garðarsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, auk Lilju Alfreðsdóttur, sem er ráðherra utan þings. Kjarninn tók þetta saman í ítarlegri fréttaskýringu á dögunum, sem lesa má hér.
Fréttin hefur verið uppfærð.