Senn líður að kosningum og eru línur innan flokkanna óðum að taka á sig mynd. Á sama tíma og þingmenn tilkynna að þeir ætli ekki að halda áfram á komandi kjörtímabili, stíga aðrir fram og gefa kost á sér. Aðstoðarmaður innanríkisráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, staðfestir í samtali við Kjarnann að hún ætli að bjóða sig fram í annað sæti í Norðvesturkjördæmi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Haraldur Benediktsson býður sig fram í fyrsta sætið, þar sem Einar K. Guðfinnsson var áður.
Ritari og aðstoðarmaður rektors orðuð við framboð
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru allar líkur á að Magnús Lyngdal Magnússon, sagnfræðingur og aðstoðarmaður rektors Háskóla Íslands, bjóði sig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn, annað hvort í komandi þingkosningum eða í næstu sveitarstjórnarkosningum fyrir annað hvort Reykjavíkurkjördæmið. Einnig er búist við því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins, bjóði sig fram, en hún hefur þó enga ákvörðun tekið.
Bæjarstjórinn í Vestmanneyjum hugsar málið
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, hefur líka verið sterklega orðaður við framboð. Hann segist hafa fengið mörg símtöl þess efnis, bæði frá fjölmiðlum og stuðningsmönnum. „Ég tók þá ákvörðun að vera sultuslakur fram yfir forsetakosningar. Hef ekki verið að stefna að þessu, ég er í mjög krefjandi og góðri vinnu sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum,“ segir hann við Kjarnann. „En það væri hrokafullt að íhuga ekki þegar maður fær svona mikinn stuðning. En lengra er ég ekki kominn í þessu.“
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti í gær að hún ætlaði ekki að gefa kost á sér áfram fyrir flokkinn. Í kjölfarið tilkynnti Elín Hirst að hún hugðist bjóða sig fram í sæti Ragnheiðar, 2. sæti í Suðvesturkjördæmi.