Íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hækkar að meðaltali um 9,2% samkvæmt nýju fasteignamati sem Þjóðskrá kynnir í dag. Fasteignamatið gildir fyrir næsta ár, og er ætlað að endurspegla verðlag fasteigna í febrúar á þessu ári. Mesta hækkunin verður í Bústaðahverfi, um 20,1%. Í Fellunum í Breiðholti hækkar fasteignamatið um 16,9% og um 16,3% í Réttarholti.
Á þremur svæðum á höfuðborgarsvæðinu lækkar fasteignamatið milli ára, um 0,8% á Kjalarnesi, 3,5% í Garðabæ vestan Hraunholtsbrautar og um 4,1% á Arnarnesi í Garðabæ.
Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hækka að meðaltali um 6,5% en fjölbýli hækka mun meira, um 11,7% að meðtaltali. Utan höfuðborgarsvæðisins er munurinn ekki eins mikill, eða 5,5% hækkun í sérbýli og 8,6% í fjölbýli.
Hækkar mest á Suðurnesjum og Vestfjörðum
Hækkunin á fasteignamatinu utan höfuðborgarsvæðisins er mest á Vestfjörðum, 6,9% og Suðurnesjum, 6,8%. Á Vesturlandi er hækkunin 5,8%, 0,2% á Norðurlandi vestra, 5,7% á Norðurlandi eystra, 5,6% á Austurlandi og 4,8% á Suðurlandi.
Í einstaka byggðalögum er mesta hækkunin í Vopnafjarðarhreppi, um 12,1% og um 12% í Vesturbyggð. Það lækkar hins vegar mest í Akrahreppi, um 4,8% og á Blönduósi um 3,6%.
Heildarmatið hækkar um 7,8%
Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,8 prósent frá yfirstandandi ári, og verður 6.293 milljarðar króna. Fasteignamatið hækkar á 94,6% eigna en lækkar á 5,4% eigna.
Frekari upplýsingar um fasteignamatið birtast síðar í dag og þá verður greint nánar frá fasteignamatinu.