Neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna á Íslandi eru í forgrunni í útskýringum Ólafar Nordal innanríkisráðherra á því hvers vegna stjórnvöld hafa ákveðið að leggja fram frumvarp til laga til að stöðva yfirvinnubann flugumferðarstjóra. Þingfundur hófst rétt í þessu á Alþingi þar sem frumvarpið verður tekið fyrir.
„Í fyrsta lagi er ríkinu
ómögulegt að sinna lögbundnum skyldum sínum og þjónustu, þ.m.t. alþjóðlegum skuldbindingum
um trygga, hagkvæma og örugga flugumferðarþjónustu. Í öðru lagi eru heildarhagsmunir
heillar atvinnugreinar undir, þ.e. ferðaþjónustunnar, og í þriðja lagi er mikilvægt að
efnahagslegum stöðugleika verði ekki stefnt í voða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum á
vinnumarkaði,“ segir í athugasemdum við lagafrumvarpið.
Áhrifin á rekstur og orðspor ferðaþjónustunnar mikil
Þá hafi tæplega 60 tilkynningar um röskun á flugumferðarþjónustu á Keflavíkurflugvelli verið gefnar út vegna yfirvinnubannsins, og það komi sérstaklega niður á farþegum og flugfélögum, sem ekki eru aðilar að kjaradeilunni.
„Fram hefur komið að aðgerðir flugumferðarstjóra hafa raskað 1.200 flugferðum Icelandair og haft áhrif á um 200.000 farþega félagsins. Seinkanir flugvéla WOW-air hafa haft áhrif á um 20.000 farþega. Þá halda yfir 20 önnur flugfélög uppi áætlunarflugi til Keflavíkurflugvallar á þessum árstíma og hafa aðgerðirnar jafnvel haft meiri áhrif á þjónustu þeirra þar sem mörg þeirra fljúga hingað til lands í næturflugi. Mikilvægt er að samgöngur til og frá landinu séu í góðu horfi og eru flugsamgöngur burðarás í farþegaflutningum og flutningum með fersk matvæli, svo sem sjávarfang.“ Ljóst sé að með auknum straumi ferðamanna hafi hlutdeild flugstarfsemi af vergri landsframleiðslu aukist mikið, enda sé búist við 1,7 milljónum ferðamanna hingað til lands á þessu ári.
Áhrifin af vinnudeilunni á rekstur íslenskrar ferðaþjónustu og orðspor eru því mikil, segir í frumvarpinu. Um þriðjungur starfa sem skapast hafi í hagkerfinu frá 2010 til 2015 séu tengd ferðaþjónustu.
Ísland er einnig aðili að samningi þar sem ríkið hefur tekið að sér að tryggja samfellda flugleiðsöguþjónustu á Norður-Atlantshafi á hagkvæman og öruggan hátt, en ljóst sé að aðgerðir Félags íslenska flugumferðarstjóra komi í veg fyrir að íslensk stjórnvöld geti staðið að fullu við þá skuldbindingu. „Alþjóðaasamtök flugfélaga, IATA, hafa fylgst með málinu, lýst áhyggjum og leitað upplýsinga um truflanir og stöðu mála frá Isavia. Standi ríkið ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum er hætt við að starfsemin fari úr landi. Með því glatast 5 milljarða kr. gjaldeyristekjur.“
Hækkanir myndu stofna stöðugleika í hættu
„Kjaradeilan hefur nú þegar valdið miklu tjóni á mörgum sviðum. Viðræður aðila hafa reynst árangurslausar. Augljós hætta er á að launahækkanir umfram það sem þegar hefur verið samið um á almennum vinnumarkaði hafi neikvæð áhrif á gildandi kjarasamninga og stöðugleika á vinnumarkaði,“ segir jafnframt í frumvarpinu.
„Brýnt er að
kjaradeilan komi ekki af stað víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefðu í för með sér
aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar sem SALEK-samkomulaginu er ætlað að koma í veg
fyrir. Þessu frumvarpi er því ætlað að treysta forsendur stöðugleika á vinnumarkaði.“