Ef Alþingi vill fá upp heildstæða mynd af notkun aflandsfélaga um og eftir hrun, og þýðingu þess fyrir íslenskt samfélag í stærra samhengi er skipun rannsóknarnefndar um málið vel til þess fallin.
Þetta segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri í umsögn um þingsályktunartillögu þingmanna Vinstri grænna, sem leggja til að skipuð verði rannsóknarnefnd á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum. Bryndís segir að aðgerðir skattyfirvalda muni aldrei geta upplýst að fullu um umfang notkunar aflandsfélaga né gefið nema takmarkaða mynd af tilgangi stofnunar og notkunar þeirra.
„Samkvæmt eðli máls eru verkefni skattyfirvalda tengd aflandsfélögum fyrst og fremst í því fólgin að leita leiða til að ná utan um skattundanskot sem kunna að hafa átt sér stað í gegnum slík félög með það að markmiði að ná undandregnum tekjum í ríkissjóð og eftir atvikum að hlutast til um viðeigandi refsimeðferð vegna ætlaðra brota,“ segir Bryndís einnig.
Starfshópur fjármálaráðherra búinn að funda þrisvar
Í þingsályktunartillögu sinni leggja þingmennirnir einnig til að fjármála- og efnahagsráðherra stofni sérstakan rannsóknarhóp sem fari yfir og meti skattundanskot og aðra ólögmæta starfsemi. Bryndís bendir einnig á það í umsögn sinni að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi skipað starfshóp um mótun aðgerðaráætlunar gegn skattsvikum og skattaskjólum. Hann muni væntanlega gera að meginstefnu það sama og rannsóknarhópnum væri ætlað að gera. Starfshópnum er „ætlað að móta tillögur að breytingum á lögum, reglugerðum eða verklagsreglum sem mynda munu einn áfanga að aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda gegn skattsvikum og nýtingu skattaskjóla almennt.“
Þegar Bryndís skrifaði umsögn skattrannsóknarstjóra hafði hópurinn aldrei komið saman. „Því er nánari útfærsla á verkefnum hans ekki fyllilega ljós á þessu stigi.“ Það geti hins vegar einnig verið að starfshópurinn myndi skarast á við verkefni sem rannsóknarnefnd ætti að fjalla um. Hópurinn hefur nú komið saman í þrígang, að sögn Elvu Bjarkar Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa fjármálaráðuneytisins.
Fréttinni hefur verið breytt. Upphaflega stóð að starfshópur fjármálaráðherra hefði aldrei komið saman, líkt og stóð í umsögn Bryndísar. Frá því að hún skilaði umsögn sinni hefur hópurinn hins vegar fundað.