Frá því fasteignaverð náði botni eftir hrunið, árið 2010, hefur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 28,7 prósent að raunvirði, og sérbýli um 15,6 prósent, fram til dagsins í dag. Allt bendir til þess að hækkunin muni halda áfram. Í miðbæ Reykjavíkur hefur hækkunin verið langt yfir meðaltalið í heild, eða 37,9 prósent.
Í nýrri kynningu Reykjavík Economics, sem Magnús Árni Skúlason hagfræðingur vann fyrir Íslandsbanka, með sérstaka áherslu á sérbýli, segir að hækkunin í miðbænum sé mögulega vegna svonefndra Airbnb áhrifa. Í miðbænum hafa tæplega tvö þúsund íbúðir verið skráðar á vef Airbnb til leigu fyrir ferðamenn, en vöxturinn í ferðaþjónustu hefur verið gríðarlega hraður undanfarin ár.
Árið 2010 komu tæplega 500 þúsund ferðamenn til landsins, en spár gera ráð fyrir að 1,6 milljónir komi á þessu ári. Áhrifin á fasteignamarkað hafa einkum komið fram í gegnum útleigu íbúða til ferðamanna. Það leiðir svo til þess að framboðshliðin verður minni, sem ýtir undir hækkun fasteignaverðs þegar eftirspurnin er jafn mikil og raunin hefur verið.
Í kynningunni kemur fram nákvæmt mat á fasteignamarkaðnum, einkum á höfuðborgarsvæðinu, og hvernig sérbýli skiptist eftir aldri eigenda. Þannig eru 37 prósent af öllu sérbýli í eigu eldra fólks, yfir sextugu, en 33 prósent af sérbýli eru í eigu fólks undir 49 ára. Um 30 prósent sérbýla er svo í eigu fólks á aldrinum 49 til 60 ára.
Í kynningunni kemur enn fremur fram að leiguverð hafi hækkað mikið á árunum 2010 til og með apríl 2016, eða um 53,7 prósent.
Í kynningunni er bent á það, að fátt virðist benda til annars en að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á næstunni. Kaupmáttur launa hefur aukist um 11,6 prósent á undanförnu ári, og verðbólga haldist í skefjum á meðan laun hafa hækkað. Eitt af því sem haldið hefur verðbólgu niðri, er lágt olíuverð á alþjóðamörkuðum, sem hefur áhrif á verðlag innfluttra vara. Nú er olíurverð byrjað að hækka á nýjan leik, og hefur á undanförnum sex mánuðum hækkað úr 27 Bandaríkjadölum í 50, sé miðað við tunnuna af hráolíu.
Líklegt er talið að verðbólga muni aukast nokkuð á næstu misserum, en eins og oftast nær, er vandi um slíkt að spá.