Hlutfall háskólamenntraðra á Suðurnesjum er næstum helmingi lægra en landsmeðaltalið. Alls eru 19,7 prósent íbúa á Suðurnesjum með háskólapróf en á landinu öllu er það hlutfall 36,2 prósent. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að lágt stig háskólamenntunar sé að einhverju leyti afleiðing af 50 ára veru varnarliðsins á Suðurnesjunum. Það hafi útvegað fólki vel launuð störf án hárrar menntunarkröfu. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar kemur einnig fram að mæður undir tvítugu eru þrisvar sinnum fleiri á Suðurnesjum en á Höfuðborgarsvæðinu og rúmlega tvisvar sinnum fleiri en meðaltal slíkra mæðra á landinu öllu. Þetta kemur fram í lýðheilsuvísum landlæknisembættisins.
Mikil vandræði eftir brotthvarf hersins og hrunið
Suðurnesin hafa gengið í gegnum ýmiskonar vandræði síðastliðinn áratug. Eftir hrunið var atvinnuleysi á Suðurnesjum lengi vel það mesta á landinu, fór hæst upp i 14,5 prósent, og hlutfall heimila sem voru í vanskilum þar var það hæsta á landinu. Þá var hlutfall örorkuþega hæst á svæðinu og fleiri fyrirtæki fóru þar í þrot eftir hrunið en á flestum öðrum stöðum á landinu. Fasteignaverð féll einnig hratt og markaður fyrir fasteignir þar var botnfrosinn um margra ára skeið.
Þar spilaði inn í að herinn hvarf frá fyrir áratug síðan og með honum fjöldi starfa án þess að nein ný kæmu í staðinn. Til að takast á við þessa stöðu síðustu árin fyrir hrun reyndi stærsta sveitarfélagið á Suðurnesjum, Reykjanesbær, að liðka fyrir uppbyggingu á stóriðju í Helguvík, meðal annars með lántöku til að byggja upp höfnina þar og mikilli eignasölu sem afraksturinn af var svo notaður til fjárfestinga. Auk þess lagði sveitarfélagið sig fram við að auka lóðaframboð og reyna með því að fjölga íbúum hratt.
Þessar aðgerðir, ásamt braski með fasteignir sveitafélagsins, skiluðu því í hræðilegri fjárhagsstöðu og á tólf ára tímabili var það rekið með rekstrartapi ellefu sinnum. Þótt að mikil tiltekt hafi átt sér stað í rekstri þess á undanförnum árum þá eru enn líkur á því að fjárhaldsstjórn verði skipuð yfir Reykjanesbæ á næstu vikum.
Ýmsar hagtölur batnað hratt
Ýmsar aðrar hagtölur hafa þó batnað hratt á Suðurnesjum á undanförnum árum, samhliða gríðarlegri aukningu í komu ferðamanna til landsins, en Keflavíkurflugvöllur og þjónusta í kringum hann er stærsti vinnustaður svæðisins.
Í maí náði svæðið til að mynda þeim árangri að atvinnuleysi er ekki lengur mest þar á landinu i fyrsta sinn í áraraðir. Nú mælist það einungis 2,6 prósent. Fasteignaverið á Suðurnesjum hefur einnig hækkað skarpt á allra síðustu árum og í nýju fasteignamati fyrir árið 2017, sem kynnt var í gær, kom fram að næstmesta hækkunin utan höfðuborgarsvæðisins væri á Suðurnesjunum, eða 6,8 prósent.