Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,8 prósent um næstu áramót, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands sem kynnt var í gær. Fasteignamatið hækkar á 94,6 prósent eigna en lækkar á 5,4 prósent eigna frá fyrra ári.
Fjölbýli hækkar meira en sérbýli. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar fasteignamat fjölbýlis um 11,7 prósent en sérbýli hækkar um 6,5 prósent. Utan höfuðborgarsvæðisins hækkar fasteignamat fjölbýlis um 8,6 prósent en sérbýli um 5,5 prósent.
Jón Ævar Pálmason verkfræðingur hefur birt á heimasíðu sinni actuary.is gagnvirkt kort sem sýnir hlutfallsbreytingu fasteignamats á landinu öllu. Á síðunni kemur fram að fasteignamatið sé lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda fyrir næsta almanaksár og geti fasteignaeigendur gert athugasemdir við matið fram til 1. september á skra.is.
Kortið má sjá hér að neðan. Betri mynd fæst af hverjum landshluta með því að þysja inn kortið.
Eins og kom fram í Kjarnanum í gær þá hækkaði íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 9,2 prósent. Fasteignamatið gildir fyrir næsta ár, og er ætlað að endurspegla verðlag fasteigna í febrúar á þessu ári. Mesta hækkunin verður í Bústaðahverfi, um 20,1 prósent. Í Fellunum í Breiðholti hækkar fasteignamatið um 16,9 prósent og um 16,3 prósent í Réttarholti.
Sé miðað við miðgildi matsbreytingar þá hækkar fasteignamat mest í þremur póstnúmerum utan höfuðborgarsvæðis; í Búðardal um 22,4 prósent, á Patreksfirði um 22,2 prósent og í Vík um 19 prósent.
Mest lækkar fasteignamat í þremur póstnúmerum; á Blönduósi um -8,2 prósent, á Hvammstanga um -6,8 prósent og í Hrísey um -6,5 prósent.