Fjölbragðaglímukappinn og leikarinn Hulk Hogan er búinn að setja fjölmiðlafyrirtækið Gawker Media í gjaldþrotameðferð. Hann sigraði skaðabótamál gegn fyrirtækinu vegna kynlífsmyndbands af honum og unnustu félaga hans, sem komst í umferð með umfjöllun á vef í eigu Gawker hinn 4. október 2012.
Dómstóll í Florída ríki dæmdi Hogan 140 milljónir Bandaríkjadala í bætur, eða sem nemur um 18 milljörðum króna, vegna brota gegn friðhelgi einkalífs hans. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa brugðist við þessu með því að auglýsa eftir tilboðum í fyrirtækið. Gawker sinnir útgáfustarfsemi, einkum á netinu, en hefur einnig gefið út tímarit sem fjalla um dægurmálefni og slúður. Starfsmenn hafa mest verið í kringum 700 talsins, en hefur farið fækkandi að undanförnu, enda reksturinn í uppnámi.
Fjárfestirinn Peter Thiel, sem þekkur er fyrir sprotafjárfestingar og nýsköpunarstarf, er einn þeirra sem sótt hefur að Gawker, vegna umfjöllunar um hann sem hann segir hafa verið meiðandi og átt meira skylt við einelti en málefnalega umfjöllun. Hann er sagður vilja knésetja fyrirtækið, og samkvæmt umfjöllun New York Times, er hann einn þeirra sem hefur sýnt áhuga á að kaupa það, jafnvel með það í huga að leggja það niður.
Nick Denton, stofnandi Gawker Media, sagði á Twitter síðu sinni að Thiel myndi ekki ná að þagga niður í Gawker. Fyrirtækið myndi starfa áfram, þó eigendur verði aðrir. Hann sagði frjálsa fjölmiðlun eiga undir högg að sækja, ef frægir einstaklingar gætu þaggað niður í fjölmiðlun með málsóknum og peningum.
Dómurinn sem féll Hogan í vil kom mörgum á óvart, enda upphæðirnar sem hann fékk í bætur svimandi háar, og fá dæmi um að víðlíka fjárhæðir í dómum þar sem friðhelgi einkalífsins er til umfjöllunar. Denton sagði niðurstöðuna vera „ótrúlega“ og „óskiljanlega“, og að réttlætið myndi sigra að lokum. Síðan þá hefur Gawker fari í gjaldþrotameðferð, þar sem það gat ekki greitt Hogan bætur, og leitar nýrra eigenda.