Hinn 29 ára gamli Omar Mateen, sem myrti 50 og særði 53 á skemmtistaðnum Pulse í Orlando í nótt, hafði tengsl við íslamska ríkið (ISIS) en FBI yfirheyrði hann fyrir þremur árum og aftur árið 2014. Hann keypti vopnin sem hann notaði í árásinni - hálfsjálfvirkan riffil og skammbyssu - fyrir viku síðan.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði árásina vera í rannsókn og væri unnið eftir því að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða, þó enn hafi ekki fengist formleg staðfesti á því. Allar upplýsingar væru rannsakaðar eins fljótt og mögulegt væri.
Hann nýtti tækifærið, og bendi spjótunum að byssulöggjöfinni, og því að of auðvelt væri fyrir fólk að verða sér út um vopnm í Bandaríkjunum. „Við stöndum frammi fyrir vali. Það er líka ákvörðun að gera ekkert í þessu,“ sagði Obama.
Mateen var skotinn til bana á staðnum, í leiftursókn sérsveitar löreglunnar í Orlando á staðinn, þegar ljóst var að Mateen hafði skotið fjölmarga til bana.
Obama sagði bandarísku þjóðina vera með hugann hjá þeim sem ættu um sárt að binda vegna árásarinnar. Bandaríkin myndu nú sýna samstöðu, og bregðast við árásinni með ábyrgum hætti, í takt við þær upplýsingar sem kæmu fram.
Árásin er versta hryðjuverkaárás í Bandaríkjunum frá árásunum á tvíburaturnanna 11. september 2001, og versta árás sem beinst hefur gegn hinsegin fólki í sögu landsins. Þá er skotárásin sú mannskæðasta í sögunni.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Orlando, og er rannsókn á árásunum - og tengslum við hryðjuverkasamtök - í fullum gangi.