Fimmtíu eru látnir eftir skotárás á skemmtistaðnum Pulse fyrir hinsegin fólk í Orlando í Flórída í gærkvöldi. Árásin er mannskæðasta skotárás í sögu Bandaríkjanna.
Bandaríska alríkislögreglan FBI segir árásina hafa verið hryðjuverkaárás (act of terror), og er hún rannsökuð sem slík, samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC.
Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í Orlando vegna árásarinnar, sem er rannsökuð sem hryðjuverk sem stendur en einnig kemur til greina að hún sé hatursglæpur.
Árásarmaðurinn hét Omar Saddiqui Mateen og var 29 ára gamall Flórída-búi og með bandarískt ríkisfang. Hann var skotinn til bana á staðnum, í leiftursókn sérsveitar löreglunnar í Orlando á staðinn, þegar ljóst var að Mateen hafði skotið fjölmarga til bana, vopnaður hálfsjálfvirkum riffli og skammbyssu.
Árásin hefur verið fordæmd af þingmönnum, borgarstjórum í Evrópu og þjóðarleiðtogum einnig. Þeir hafa notað Twitter til að koma skilaboðum sínum á framfæri.
Í tilkynningu frá Hvíta húsinu, segir að Barack Obama Bandaríkjaforseti hafi komið þeim skilaboðum til lögregluyfirvalda að yfirvöld myndu leggja lið á allan mögulegan hátt, þegar kæmi að rannsókn málsins. Í yfirlýsingunni er áréttað að áköf leit að upplýsingum sem geti greint atburðina eins vel og hægt er, sé í gangi og að Bandaríkjaforseti fái upplýsinga jafn óðum og þær berast.