Microsoft hefur keypt LinkedIn-samfélagsmiðilinn fyrir 26,2 milljarða dollara eða því sem nemur rúmlega 3.200 milljörðum íslenskra króna. Þetta mun vera stærsti viðskiptasamningur sem Microsoft hefur gert. LinkedIn hefur 433 milljón notendur og því mun umfang þessa samruna vera gríðarlegt.
Samkvæmt Reuters fréttastofunni mun þessi samningur hjálpa Microsoft að halda tölvupóstforritinu Outlook gangandi og koma í veg fyrir að fólk sæki enn frekar í Google-tölvupóstviðmótið. Að sama skapi mun LinkedIn færa út kvíarnar með því að fá aðgang að notendum Office-viðskiptahugbúnaðarins.
Satya Nadella framkvæmdastjóri Microsoft segir í samtali við Reuters að samningarnir hafi verið í pípunum lengi og að þeir muni koma sér vel fyrir notendur þeirra.
Reid Hoffman, formaður stjórnar LinkedIn, segir að hann hafi verið fylgjandi samningnum en Jeff Weiner mun halda starfi sínu sem framkvæmdastjóri. LinkedIn verður áfram sjálfstæð eining þrátt fyrir þennan samruna.