Viðskiptaráð Íslands hvetur stjórnvöld til að hætta alfarið hefðbundnum atvinnurekstri en ráðið telur að stjórnvöld geri það í sumum tilfellum án þess að málefnaleg sjónarmið liggi að baki. Stjórnmálamenn hafi látið vera að afleggja starfsemina og látið reksturinn óáreittan. Dæmi um þetta séu fjármálastofnanir, tjaldsvæðaþjónusta, malbikunarstöð, smásölufyrirtæki og sorphirða. Viðskiptaráð telur að með slíkri starfsemi dragi hið opinbera úr hagsæld með óhagkvæmri starfsemi og skapi skattgreiðendum óþarfa rekstraráhættu. Þetta kemur fram í skoðun Viðskiptaráðs sem kom út í morgun um atvinnustarfsemi hins opinbera.
Ríkið stærsti atvinnurekandinn
Í skýrslunni kemur fram að hið opinbera sé stærsti atvinnurekandi á Íslandi. Í dag spanni atvinnustarfsemi stjórnvalda 23 atvinnugreinar og um 70 ólíka rekstraraðila. Samtals starfi ríflega 7.000 einstaklingar hjá þessum aðilum sem gerir hið opinbera að stærsta atvinnurekanda á Íslandi mælt í fjölda starfsmanna.
Um einn af hverjum fimm opinberum starfsmönnum starfar í atvinnurekstri. Opinberir starfsmenn voru um 37 þúsund talsins árið 2014. Stærstur hluti þeirra starfar í opinberri þjónustu, þ.e. við rekstur stofnana-, mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfis. Auk þeirra starfa um sjö þúsund manns í opinberum atvinnurekstri. Þau störf eru frábrugðin öðrum opinberum störfum að því leyti að um er að ræða tekjuskapandi áhætturekstur sem oft og tíðum er einnig sinnt af einkaaðilum, að mati Viðskiptaráðs.
Í skýrslunni kemur fram að í sumum tilfellum sé þessi starfsemi eðlileg en í öðrum sé hún til þess fallin að draga úr lífskjörum. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að jafna leikvöllinn í samkeppni hins opinbera við einkaaðila, afmarka hlutverk stofnana í atvinnurekstri og afleggja opinberan samkeppnisrekstur. Þannig megi tryggja að atvinnurekstur stjórnvalda skili samfélaginu tilsettum ávinningi án þess að það sé gert á kostnað hagsældar.
Mæla með þjónustusamningi
Viðskiptaráð telur að þjónustusamningur geti skilað meiri heildarávinningi en þegar stjórnvöld standa í opinberum atvinnurekstri. Stjórnvöld losni við þá rekstraráhættu sem fylgir atvinnurekstri og greiði þess í stað fasta og fyrirsjáanlega upphæð til að tryggja að þjónustan sé veitt. Einkaaðilinn beri hins vegar áhættuna sjálfur og hafi því hvata til að hagræða í rekstri og auka tekjur eins og unnt er á samningstímanum.
Viðkomandi rekstraraðili sjái þá hag sinn í því að ráðast í markaðsherferðir til að auka afkastagetu eða bjóða upp á ýmiss konar viðbótarþjónustu. Skattur væri síðan greiddur af þeim hagnaði sem kynni að myndast og stjórnvöld gætu dregið úr sinni föstu greiðslu, og þar með kostnaði skattgreiðenda við að tryggja þjónustuna, við endurnýjun samningsins ef reksturinn gengur vel.
Þessi leið hefur verið valin í nýjum frumvarpsdrögum að lögum um póstþjónustu. Segir í skýrslunni að verði frumvarpsdrögin að lögum verður einkaréttur Póstsins á póstdreifingu afnuminn og samkeppni á markaðnum gerð frjálsari. Framkvæmdavaldinu verði jafnframt heimilt að veita rekstraraðilum stuðning gegn því að þeir skuldbindi sig til að starfrækja póstþjónustu á landinu öllu og sinni þannig þjónustu sem stjórnvöld telja samfélagslega mikilvæga.
Hlutverk hins opinbera ekki að vera í tekjuaukandi starfsemi
Einnig kemur fram í skýrslunni að í sumum tilfellum stundi hið opinbera atvinnurekstur í gegnum ýmsar stofnanir sem það starfrækir. Þá stígi viðkomandi stofnanir inn á svið sem áður hefur verið sinnt af einkaaðilum án þess að markaðsbrestur hafi verið til staðar. Dæmi um slíkt hérlendis megi finna í fasteignarekstri, rannsóknum, ráðningarþjónustu, veitingarekstri og þýðingarþjónustu.
Sumar stofnanir sæki í auknum mæli í sértekjur í stað þess að treysta á opinber framlög. Þetta sé óheppilegt í ljósi þess að hlutverk hins opinbera er að veita þá þjónustu sem ekki skapar tekjur og telst þannig til samfélagslegra en ekki fjárhagslegra verðmæta. Með því að auka áherslu á tekjuskapandi starfsemi séu stofnanir að færa sig í auknum mæli frá hlutverkum sínum.
Bein samkeppni við einkaaðila ekki heilbrigð
Í þriðja lagi gagnrýnir Viðskiptaráð hefðbundinn samkeppnisrekstur á vegum hins opinbera. Þá séu ekki til staðar markaðsbrestir sem réttlæta opinberan rekstur en stjórnvöld haldi engu að síður slíkum rekstri úti. Dæmi um þetta megi finna í innlendri bankaþjónustu, ferðaþjónustu, fjölmiðlun, kortagerð, malbiksframleiðslu, smásölu, sorphirðu og útgáfustarfsemi.
Að mati Viðskiptaráðs eiga stjórnvöld ekki að koma slíkri starfsemi. Með hefðbundnum samkeppnisrekstri starfi hið opinbera í beinni samkeppni við einkaaðila. Slík samkeppni sé ekki heilbrigð.