Stefnt er að því að leggja fram þingsályktunartillögu um fullgildingu loftslagssáttmála þegar Alþingi kemur aftur saman í ágúst. Nú er unnið að gerð tillögunnar í umhverfisráðuneytinu en Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, undirritaði Parísarsamninginn fyrir hönd Íslands í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna 22. apríl. Þing kemur saman á ný 15. ágúst.
Fulltrúar 160 ríkja hafa undirritað samninginn sem gerður var í París í desember á stærstu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna frá upphafi. Um er að ræða lagalega bindandi alþjóðasamning undir Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem stuðlar að því að ríki heims dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og býr til hvata fyrir ríki til að binda meira af kolefni. Meðalhiti jarðar má ekki fara yfir tvær gráður, miðað við meðalhita jarðar fyrir iðnbyltingu, samkvæmt samningnum án þess að illa fari fyrir mannkynið.
Í svari umhverfisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að nú sé unnið að þingsályktunartillögunni sem lögð verður fyrir Alþingi í sumarlok. Þar verði fyrsta skrefið tekið að fullgildingu samningsins hér á landi. Samfara vinnu við gerð þingsályktunartillögunnar vinnur Þýðingarmiðstöð að íslenskri þýðingu á samningnum, en þýðing þarf að liggja fyrir áður en leggja má skjölin fyrir þingið.
Ísland setti sér loftslagsmarkmið fyrir loftslagsráðstefnuna í París með Evrópusambandsríkjunum auk Noregs. Áður en Parísarsamningurinn verður leiddur í lög hér á landi þarf Ísland að ljúka samningum við Evrópusambandið um sína „réttlátu hlutdeild“ í loftslagsmarkmiði Evrópusambandsins, eins lýst var yfir í fyrra. Markmið ESB í loftslagsmálum er að losa 40 prósent minna af gróðurhúsalofttegundum árið 2030 miðað við árið 1990. Ísland hefur skuldbundið sig til að minnka losun á sínum „réttláta hluta“ í þessu markmiði, sem enn hefur ekki verið samið um.
Aðeins hafa óformlegar viðræður farið fram við ESB og Norðmenn en pólitísk ákvörðun liggur fyrir um að stefnt skuli að sama markmiði. Formlegri viðræður geta hafist þegar drög að nýjum loftslagsreglum ESB verða kynntar í sumar. Stefnt er að því að ljúka viðræðum við ESB og Norðmenn á næsta ári.
Parísasamningurinn er ekki ósvipaður Kyoto-bókuninni svokölluðu sem samþykkt var árið 1997 og tók gildi árið 2005. Skuldbindingar aðildarríkja að Kyoto-bókuninni renna út árið 2020 og þá er Parísarsamningnum ætlað að taka við. Mun fleiri þjóðir hafa skuldbundið sig til að innleiða Parísarsamkomulagið en innleiddu Kyoto-bókunina, þar eru á meðal stærstu mengunarþjóðir heims.
Frakkar urðu á dögunum fyrsta stórþjóðin til að fullgilda Parísarsamninginn. Stjórn Francois Hollande, forseta Frakklands, hefur lagt mikla áherslu á að samkomulagið verði fullgilt sem víðast um heiminn. Samningurinn mun ekki verða gildur nema þær þjóðir sem bera ábyrgð á samtals 55% útblásturs í heiminum fullgilda samninginn. Hollande hvatti í ræðu sinni í Élysée-höll á dögunum aðrar Evrópuþjóðir að fylgja fordæmi Frakklands áður en árið væri úti. Þegar hafa 17 minni ríki fullgilt samninginn, aðallega eyþjóðir sem eru sérstaklega viðkvæmar fyrir hækkandi yfirborði sjávar.