Hreinsa þarf bæði nitur og fosfór úr fráveituvatni til að minnka álag á Mývatn. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem samstarfshópur sem skipaður var um málefni Mývatns skilaði af sér á dögunum. Hópurinn varar þó við væntingum um að hægt sé að snúa neikvæðri þróun lífríkisins á skömmum tíma. Neikvæðar breytingar á lífríki Mývatns benda til næringarefnaauðgunar að mati RAMÝ, Náttúrurannsóknarstöðvar við Mývatn. Hópurinn segir að sporna þurfi við þessari þróun. Í skýrslunni kemur fram að þótt ekki teljist sannað að næringarefnaauðgun sé helsta orsök vandans sé nauðsynlegt að draga úr losun slíkra efna í vatnið.
Samkvæmt starfshópnum þarf líka að auka rannsóknir og vöktun á lífríki Mývatns og Laxár og hann telur að tekjur af ferðamannastraum eigi að renna að einhverju leyti til þessara aðgerða. Efla þurfi einnig fræðslu til íbúa og ferðamanna.
Miklar umræður hafa skapast um ástand og lífríki vatnsins undanfarið. Kjarninn fjallaði meðal annars um ályktun Veiðifélags Mývatns í maí, þar sem félagsmenn skoruðu einmitt á stjórnvöld að beita sér fyrir auknum framlögum til rannsókna og aðgerða vegna áfalla í lífríki Mývatns og Laxár.
Ríkið og Skútustaðahreppur vinni að útbótum saman
Í skýrslunni segir að gera þurfi heildstæða áætlun um úrbætur í fráveitumálum en þær þurfi að ná til nokkurra staða við vatnið. Rétt sé að ríkisvaldið og Skútustaðahreppur vinni saman að umbótum við hreinsun vatns og öðrum aðgerðum til að draga úr innstreymi næringarefna í Mývatn. Starfshópurinn mælir með að víðtæk greining á lausnum í fráveitumálum taki eins skamman tíma og unnt er.
Nauðsynlegt að efla frekari rannsóknir
Í skýrslunni kemur einnig fram að nauðsynlegt sé að efla rannsóknir og vöktun á Mývatni og Laxá og lífríkinu þar. Í ljósi vandans nú sé mikilvægt að fá betri mynd af innstreymi næringarefna, vexti þörunga og blábaktería og ferlum í fæðukeðjum vatnsins. Einnig þurfi að huga að mögulegum eituráhrifum bakteríanna í Mývatni. Jafnframt sé æskilegt að fylgjast með svipuðum ferlum í öðrum vötnum á svæðinu.
Mikilvægt sé að efla enn frekar samstarf vísindamanna sem koma að vöktun og rannsóknum og miðlun á niðurstöðum þeirra til stjórnvalda, íbúa svæðisins og almennings.
Ferðamannatekjur ættu að renna til aðgerða
Tekjur af stórauknum ferðamannastraumi ættu að renna að einhverju leyti til aðgerða til að vernda helstu náttúruperlur og tryggja aðdráttarafl þeirra og sýna fram á að Íslendingar hlúi vel að þeim, að mati skýrsluhöfunda. Fjölgun ferðamanna séu taldar auka álag á lífríki Mývatns og ljóst sé að Mývatn og Laxá eru meðal helstu og þekktustu náttúruperla Íslands. Sem slíkar hafi þær mikið fjárhagslegt virði fyrir þjóðarbúið, auk ómetanlegs gildis einstakrar náttúru og lífríkis á heimsvísu.
Efla þarf fræðslu
Æskilegt þykir að efla fræðslu til íbúa og ferðamanna sem getur reynst skjótvirk leið til bættrar umgengni og að halda áhrifum manna í lágmarki, að mati skýrsluhöfunda. Fræðsla til íbúa um lífríkið, vatnssparandi lausnir sem draga úr álagi á skólphreinsikerfi og um notkun vistvænna hreinsiefna séu dæmi um brýn málefni. Fræðsla til ferðamanna um umgengni og aukið eftirlit með því að friðlýsingarskilmálum laga um Mývatn og Laxá sé fylgt leiði einnig til bættrar umgengni.
Hlutverk hópsins að draga saman bestu fáanlega þekkinguna
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra skipaði samstarfshópinn 17. maí síðastliðinn og óskaði eftir því að hann skilaði samantekt um ástand mála í Mývatni, orsakir þess vanda sem þar er nú við að búa og hugsanlegar aðgerðir til að bæta þar úr. Hópinn skipuðu átta fulltrúar frá stofnunum, hagsmuna- og umhverfisverndarsamtökum, Skútustaðahreppi og ráðuneytinu. Þetta kemur fram í frétt Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Tilgangur samantektarinnar var að aðstoða stjórnvöld við ákvarðanatöku varðandi mögulegar aðgerðir sem gætu komið að gagni til að draga úr álagi af manna völdum á lífríki vatnsins. Auk samantektar á þeim upplýsingum sem ráðherra óskaði eftir setti hópurinn einnig fram nokkrar ábendingar sem stjórnvöld gætu haft til hliðsjónar varðandi næstu skref.