Ný útlán Landsbankans jukust mest allra viðskiptabankanna og sparisjóða á árinu 2015 eða um 225 milljarða. Þegar tekið hefur verið tillit til liði á borð við afborganir og virðisbreytingar þá nemur aukning heildarútlána bankans 84 milljörðum krona. Samtals stóðu útlán bankana í tæpum 2.180 milljörðum í árslok 2015. Þetta kemur fram í samantekt Fjármálaeftirlitsins á heildarniðurstöðum ársreikninga. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Heildarútlán viðskiptabanka og sparisjóða stóðu í tæpum 2.190 milljörðum króna, um það bil 130 milljörðum hærra en í lok árs 2014. Landsbankinn lánaði mest allra bankanna á árinu. Heildarútlán bankans við áramót námu 811,5 milljörðum króna. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir í samtali við Morgunblaðið 14 milljarða af þessari upphæð má rekja til sameiningar tveggja sparisjóða við bankann, Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands, og til mikilla fasteingalána.
„Þá tók fjárfesting atvinnuveganna einnig mikið við sér og er það töluverð breyting miðað við fyrstu árin eftir hrun þegar fyrirtæki lögðu alla áherslu á að greiða niður skuldir,“ er haft eftir Steinþóri. „Nú hefur dæmið snúist við, fjárfesting tekið við sér og þá miðlum við fjármagni til uppbygginar á flestum sviðum.“
Árið 2016 fari mun hægar af stað þegar kemur að útlánum Landsbankans, að sögn Steinþórs og nefnir hann lífeyrissjóðina sem dæmi um skýringu. Þeir hafi komið sterkir inn á fasteignalánamarkaðinn. Bankinn sé einnig að stýra lausafé sínu með þeim hætti að lausafjárstaðan verði sterkari þegar kemur að afnámi hafta, sem stjórnvöld vinna nú að. „Lausafjárkröfur Seðlabankans hækkuðu um 10 prósentustig milli ára og það hefur vissulega áhrif,“ er haft eftir Steinþóri.
Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins segir að hagnaður viðskiptabankanna á árinu 2015 var samtals ríflega 106 milljarðar króna. Viðskiptabankarnir eru Arion Banki, Íslandsbanki, Kvika banki og Landsbankinn. Mest hagnaðist Arion banki, um tæpa 50 milljarða, en Kvika skilaði tapi um tæpar 483 milljónir króna. Hagnaður bankanna árið 2015 er nokkru meiri en árið 2014 þegar þeir högnuðust um rúman 81 milljarð króna.
Í skýrslunni má einnig lesa um meðalfjölda starfsmanna fjármálafyrirtækja á árinu 2015 sem var örlítið minni en árið 2015. Í fyrra var meðalfjöldi starfsmanna 3.905 manns en var 4.038 árið 2014. Þá hefur afgreiðslustöðum viðskiptabanka og sparisjóða fækkað nokkuð síðan árið 2014 þegar þeir voru 95 talsins um land allt. Í lok árs 2015 voru þeir 81. Munar þar mest um fækkun sparisjóða og sameiningar við viðskiptabankana.
Uppfært kl. 9:10 - Ranglega var sagt að útlán Landsbankans hafi aukis um 225 milljarða á síðasta ári. Þegar tillit hefur verið tekið til aðra liða á borð við afborganir og virðisbreytingar þá nemur aukning heildarútlána bankans 84 milljörðum króna.