Hlutabréfamarkaðir fóru víða illa í gær, eftir að fréttirnar komu fram um niðurstöðu Brexit-kosningannar í Bretlandi, sem sýndu þjóðarvilja í meirihluta fyrir útgöngu úr Evrópusambandinu (ESB). En sérstaklega fóru eignamarkaðir illa í Bretlandi, þar sem mikið fall pundsins, um tæplega sjö prósent, kom til viðbótar við fall á hlutabréfaverði.
Þannig töpuðu fimmtán ríkustu menn Bretlandseyja jafnvirði um 5,5 milljörðum punda í gær, eða sem nemur um 935 milljörðum króna, að því er kemur fram á vef Bloomberg. Það er kaldhæðni örlaganna að nokkrir þeirra sem eru á þeim lista, voru miklir stuðningsmenn þess að Bretland færi úr ESB, og töluðu sumir þeirra um að algjör óþarfi væri að óttast fall á eignamörkuðum, þar sem fjárfestar væru búnir undir að brugðið gæti til beggja vona.
Peter Hargreaves, einn stofnenda fjármála- og ráðgjafafyrirtækisins Hargreaves Landsdown, missti 19,6 prósent af verðmæti eignasafns síns, samkvæmt Bloomberg, en það stóð í 2,9 milljörðum Bandaríkjadala í lok dags, samt sem áður, eða sem nemur um 360 milljörðum króna.
Hargreaves var sá sem styrkti Leave-herferðina um mestu fjármunina, eða sem nemur 3,2 milljónum punda, jafnvirði um 550 milljóna króna. Hann hætti í stjórn Hargreaves Landsdown í apríl í fyrra, og sagði við það tilefni aðhann væri tilbúinn að vinna með breskum stjórnvöldum að því að undirbúa Bretland fyrir nýja tilveru, eftir að hafa ákveðið að hætta í ESB.