Kjörsókn í Reykjavík er töluvert meiri nú en hún var í forsetakosningunum árið 2012. Klukkan 17 í dag voru rúmlega 40 prósent kosningabærra búnir að kjósa. Það sama á við um Kragann, er fram kom í fréttum RÚV klukkan 18. Þetta á við um mörg kjördæmi, en á nokkrum stöðum virðist kjörsókn vera svipuð nú og fyrir fjórum árum.
Fyrstu tölur verða kynntar á ellefta tímanum í kvöld. Kosningavaka RÚV hefst í sjónvarpi, útvarpi og á vef klukkan 22.
Allir forsetaframbjóðendur eru búnir að kjósa. Guðni Th. Jóhannesson var fyrstur, klukkan 10 í morgun á Seltjarnarnesi, og Guðrún Margrét Pálsdóttir var síðust, klukkan 16 í Fjölbrautarskólanum í Garðabæ.
Rúmlega 254 þúsund manns eru á kjörskrá á landinu öllu. Kjörstaðir opnuðu klukkan 9 í morgun og loka flestir klukkan 22 í kvöld, en sums staðar loka þeir fyrr. Hægt er að sjá hvar kjörstaðir eru á síðunni Kosning.is.
Hér má fylgjast með kjörsókn í Reykjavík á hverjum klukkutíma.