Guðni Th. Jóhannesson hefur verið kjörinn sjötti forseti Íslands. Hann hlaut 39,1 prósent atkvæða í forsetakosningunum sem lauk í gær. Það er eilítið minna en Ólafur Ragnar Grímsson hlaut í kosningununum 1996 þegar hann var fyrst kjörinn forseti. Ólafur Ragnar hlaut þá um 41 prósent atkvæða. Guðni Th. hlaut þó hlutfallslega fleiri atkvæði en Vigdís Finnbogadóttir fékk árið 1980 þegar hún var kjörin forseti með um 34 prósent atkvæða.
Stærstu tíðindi kosninganna, utan þess hver bar sigur úr býtum, var fylgi Höllu Tómasdóttur, sem reyndist mun meira en kannanir höfðu gefið til kynna. Alls fékk Halla 27,9 prósent atkvæða en hún mældist með um tvö prósent fylgi í skoðanakönnunum í upphafi kosningabaráttunnar. Andri Snær Magnason lenti í þriðja sæti og fékk 14,3 prósent atkvæða. Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, hlaut 13,7 prósent atkvæða. Fylgi við hann dalaði umtalsvert þegar leið á kosningabaráttuna. Þetta er í fyrsta sinn sem Davíð tapar kosningum á sínum stjórnmálaferli. Þá vakti frammistaða Sturlu Jónssonar nokkra athygli, en hann hlaut alls 3,5 prósent atkvæða.
Fyrir kosningarnar í gær átti Hannes Bjarnason hið vafasama met að hafa notið minnst fylgis allra sem boðið hafa sig fram í forsetakosningum. Það met var margslegið. Alls fjórir frambjóðendur fengu færri atkvæði en Hannes hlaut árið 2012, þegar hann kusu alls 1.556 manns. Elísabet Jökulsdóttir hlaut 1.280 atkvæði, Ástþór Magnússon hlaut 615 atkvæði og Guðrún Margrét Pálsdóttir 477 atkvæði. Lestina rak hins vegar Hildur Þórðardóttir. Hún hlaut einungis 294 atkvæði.
Kjörsókn var umtalsvert betri en í forsetakosningunum 2012, þegar alls fimm frambjóðendur buðu sig fram gegn sitjandi forseta. Þá kusu 69,3 prósent þeirra sem voru á kjörskrá. Í kosningunum sem lauk í gær reyndist kjörsóknin 75,7 prósent.
Þrátt fyrir að kosningum sé lokið mun Ólafur Ragnar sitja áfram sem forseti út júlímánuð. Þann 1. ágúst mun Guðni Th. Jóhannesson svo verða settur í embættið.