„Af hverju ertu hér?,“ sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í Evrópuþinginu í Brussel í dag, og beindi orðum sínum að Nigel Farage, leiðtoga breska Sjálfstæðisflokksins UKIP. Hann var einn þeirra sem leiddi Leave-hreyfinguna svokölluðu, sem barðist fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB). Eins og kunnugt er, kaus meirihluti Breta, 52 prósent, með því yfirgefa sambandið. Um 48 prósent voru því mótfallin.
Ekki liggur fyrir enn, hvernig verður að því staðið, að framkvæma útgöngu Bretlands úr sambandinu, en leiðtogar stærstu ESB-ríkjanna segja ekki koma til greina að hefja óformlegar viðræður um útgöngu, heldur geti þær eingöngu hafist þegar Bretar hafa formlega tilkynnt um útgöngu úr ESB. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur ítrekað þetta opinberlega, nú síðast í morgun.
Samkvæmt frásögn breska ríkisútvarpsins BBC, var baulað á Nigel Farage og félaga, sem höfðu barist fyrir útgöngu Breta, og þeir sagðir hafa beitt blekkingum, lygum og „nasistaáróðri“ í aðdraganda Brexit-atkvæðagreiðslunnar. Þeir gáfu lítið fyrir þetta. Farage sagði við fréttamenn að hann vildi að útgangan myndi ganga eins vel fyrir sig, og mögulegt væri. Ekkert var meira gefið upp um hvernig útgangan gæti átt sér stað, en samkvæmt sáttmála ESB-ríkja fá ríki tveggja ára aðlögunartíma til að yfirgefa sambandið, komi til þess að ríki geri það með tilkynningu um úrsögn.
Bretland hefur verið í ESB í 43 ár og aldrei hefur reynt á, að eitt af stærstu ríkjum sambandsins yfirgefi það.
David Cameron, fráfarandi forsætsráðherra Bretlands, hefur sagt að bresk stjórnvöld vilji undirbúa næstu skref eins vel og hugsast getur, til að vernda efnahagslegan stöðugleika og tryggja að Bretland hafi traust land undir fótum þegar kemur að viðskiptalegum samningum við önnur ríki.
Ekkert hefur þó verið endanlega ákveðið enn, í þessum efnum.