81% þingmanna Verkamannaflokksins lýstu yfir vantrausti á formanninn Jeremy Corbyn í atkvæðagreiðslu í dag. 172 þingmenn greiddu atkvæði með vantrausti, 40 þingmenn greiddu atkvæði gegn því. Fjögur atkvæði voru ógild og 13 þingmenn kusu ekki, samkvæmt Sky News.
Þrátt fyrir þetta ætlar Corbyn sér ekki að segja af sér, að því er fram kemur í tilkynningu frá honum. Hann segir að hann hafi verið lýðræðislega kjörinn leiðtogi flokksins „fyrir nýja tegund stjórnmála“. 60% meðlima og stuðningsmanna flokksins hafi kosið hann og hann ætli ekki að svíkja það fólk með því að segja af sér. Kosningin meðal þingmanna flokksins hafi ekkert lögformlegt gildi. Þingmenn flokksins velji ekki formanninn, það geri flokkurinn.
Fólk í kringum Corbyn segir jafnframt að hann hafi aldrei haft mikinn stuðning meðal þingflokks Verkamannaflokksins, á meðan hann hafi verið og sé vinsæll meðal almennra flokksmanna.
Því lítur allt út fyrir að Corbyn muni þurfa að berjast um áframhaldandi formennsku í flokknum.