Róðurinn þyngist hjá Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins í Bretlandi, en æ fleiri áhrifamenn bætast nú í hóp þeirra sem vilja að hann segi af sér sem formaður flokksins. Ed Miliband, sem var formaður flokksins á undan Corbyn, bættist í morgun í hóp þeirra sem vilja hann burt. Miliband hefur hingað til stutt Corbyn, en sagði að staða hans væri nú orðin óverjandi, hann hefði misst tiltrú þingmanna sinna. Gordon Brown, annar fyrrverandi leiðtogi flokksins, lýsti því einnig yfir að honum þætti að Corbyn ætti að hætta.
Í gær lýsti mikill meirihluti þingmanna Verkamannaflokksins yfir vantrausti á Corbyn, og í dag hafa allir 20 Evrópuþingmenn flokksins einnig lýst yfir vantrausti á hann. Corbyn hefur hingað til neitað að hætta, þótt breskir fjölmiðlar greini nú frá því að starfslið hans reyni nú að fá hann til að segja af sér frekar en að fara í formannsslag. Fjölmiðlar segja þó frá sögusögnum af því að mikill fjöldi fólks hafi skráð sig í flokkinn undanfarna daga til stuðnings Corbyn, og að einhver stóru verkalýðsfélögin ætli að lýsa yfir stuðningi við hann.
Vangaveltur eru uppi um það hvort flokkurinn muni hreinlega klofna. Guardian greinir frá því að þingmenn, sem séu mótfallnir Corbyn, séu farnir að skoða lagalegan rétt til að nota nafnið Verkamannaflokkurinn.
David Cameron bættist einnig í hópinn í dag þegar hann og Jeremy Corbyn tókust á í breska þinginu. Cameron sagði við Corbyn að það væri kannski Íhaldsflokknum í hag að Corbyn yrði áfram formaður Verkamannaflokksins, en það væri ekki þjóðinni fyrir bestu. „Í guðanna bænum maður, farðu!“ sagði hann því við Corbyn.
Hér að neðan má sjá myndband af Cameron að segja Corbyn að hætta.
Í dag funduðu leiðtogar hinna 27 Evrópusambandsríkjanna einnig í Brussel, í fyrsta sinn án Breta, og ræddu afleiðingar ákvörðunar bresku þjóðarinnar að segja sig úr sambandinu. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagði í yfirlýsingu eftir fundinn að engar viðræður myndu eiga sér stað fyrr en Bretar tilkynna formlega um úrsögn sína. „Leiðtogarnir gerðu það skýrt í dag að aðgangur að sameiginlega markaðnum þarfnast þátttöku í öllu fjórfrelsinu, þar með talið frjálsri för fólks.“ Það verði engar sérlausnir í boði fyrir Breta. Einnig hafi leiðtogarnir rætt það að of margir íbúar Evrópu séu óánægðir með gang mála og ætlist til þess að Evrópusambandið geri betur.