Guðni Th. Jóhannesson, verðandi forseti Íslands, segir að þegar hann hefur tekið við embættinu muni hann þurfa að sætta sig við allar siðareglur og öryggiskröfur sem gestgjafar hans gera þegar hann heimsækir viðburði á þeirra vegum. Hann geti verið með almenningi í stúkunni á leikjum í Frakklandi sem stendur þar sem að hann hefur ekki enn tekið við forsetaembættinu, en það gerir Guðni Th. 1. ágúst næstkomandi. Það gæti þó breyst eftir rúman mánuð. Þetta kemur fram í færslu á Facebook sem Guðni Th. setti inn í dag.
Í viðtali við CNN fyrr í dag sagði Guðni Th.: „Af hverju ætti ég að fara í VIP-stúkuna og sötra kampavín þegar ég get gert það hvar sem er?“ Hann lét svo fylgja að hann yrði í landsliðstreyjunni með almennum stuðningsmönnum í stúkunni á leik Íslands og Frakklands á sunnudag.
Facebook-færsla Guðna í heild sinni:
„Kæru vinir, smá árétting um áhorfendapalla og VIP-herbergi: Ég get verið með almenningi í stúkunni á leikjum í Frakklandi því að ég er ekki enn kominn í hátt embætti. Eftir embættistöku 1. ágúst verð ég að sjálfsögðu að sætta mig við allar siðareglur og öryggiskröfur gestgjafa þegar ég sæki viðburði á þeirra vegum. Úti í Nice náði ég að blanda þessu tvennu saman, fékk að líta inn í VIP-herbergið að leik loknum og blanda þar geði við góða gesti og gestgjafa. Hver veit nema það verði eins í París.“