Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina hjá Reykjavíkurborg, ætlar að snúa aftur til vinnu bráðlega. Innri endurskoðandi og regluvörður hefur skilað áliti sínu og þar kemur fram að Sveinbjörgu hafi ekki borið að skrá aflandsfélög sem hún tengdist á skrá um fjárhagslega hagsmuni borgarfulltrúa eða innherjaskrá. Félögin voru afskráð á árinu 2009 til 2010 en nafn Sveinbjargar Birnu kom fyrir í Panamaskjölunum. Í tilkynningu frá henni segir að á árunum 2009 til 2010 hafi hún verið með lögheimili og skattalegt heimilisfesti í Luxembourg.
Bar að tilkynna um tengsl sem hún gerði ekki
Í tilkynningunni segir að á árinu 2014 hafi hún í samræmi við ákvæði laga um verðbréfaviðskipti tilkynnt regluverði um þrjú nánar tiltekin einkahlutafélög sem fjárhagslega tengda aðila. „Aftur á móti hafi mér jafnframt borið að tilkynna um tengsl mín við umrædd félög á skrá þeirri sem skrifstofa borgarstjórnar heldur um fjárhagslega hagsmuni,“ segir Sveinbjörg.
Þá kemur einnig fram í úttektinni, samkvæmt tilkynningunni, að hún hafi ekki brotið sveitarstjórnar- eða stjórnsýslulög.
Í ljósi niðurstöðunnar segist Sveinbjörg ætla að snúa aftur til fyrri starfa í borgarstjórn.
Umfangsmikil úttekt
Innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar var fenginn til að gera heildstæða úttekt á fylgni við siðareglur borgarfulltrúa og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar eftir að í ljós kom að tveir starfandi borgarfulltrúar, þau Sveinbjörg og Júlíus Vífill Ingvarsson, komu fram í Panamaskjölunum. Þau höfðu ekki skráð tengsl sín við aflandsfélög í hagsmunaskrá borgarinnar.