Gunnar Hrafn Jónsson, fréttamaður erlendu deildar Fréttastofu RÚV, hefur sagt upp störfum eftir átta ár á Fréttastofunni til að ganga til liðs við Pírata. Gunnar Hrafn segir frá þessu á Facebooksíðu sinni.
Þar segist hann hafa fundið fyrir vaxandi óþoli síðustu misseri „fyrir því hvert við stefnum sem samfélag.“ „Eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn fyrir rúmum tveimur árum hefur þessi tilfinning bara ágerst. Í fyrsta sinn finnst mér ekki nóg að fókusa bara á alþjóðamálin eins og ég hef gert sem fréttamaður í erlendum fréttum. Það þarf að taka dálítið til hér heima og það verður bara skýrara fyrir mér með hverjum deginum sem líður,“ segir Gunnar Hrafn.
Hann bendir á að það sé ekki viðeigandi fyrir fréttamenn RÚV að tjá sig um málefni líðandi stundar og segir svo í framhaldinu:
„Þessi ríkisstjórn sökkar. Tortóla er skattaskjól. Piparfylltar lakkrísreimar eru ekki alveg að gera sig. Guðni verður flottur forseti. Eiður Smári ætti að fá að spila meira.“
Langar í prófkjör
Gunnar Hrafn segist ekki vera búinn að taka neina ákvörðun um það hvernig starfi hans með Pírötum verði háttað. Hann segist bara vera búinn að ákveða að taka þátt í baráttunni. „Strax og ég nefndi það að ég ætlaði að segja upp í góðri og öruggri vinnu sem ég elska til að ganga í Pírata var ég spurður hvort ég ætlaði þá í prófkjör. Auðvitað langar mig til þess,“ segir hann.
Helgi Hrafn hættir
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í komandi þingkosningum, sem fyrirhugaðar eru í haust. Áður hafði Helgi, sem nýtur mikilla persónuvinsælda hjá kjósendum, sagt að hann ætlaði fram. Helgi segir að hann sé ekki að hætta í stjórnmálum, heldur að færa sig til og starfa innan flokksins. „Ég er ekki í stjórnmálum fyrir persónufylgi,“ segir hann.
Ekki fyrsti fjölmiðlamaðurinn í Pírötum
Gunnar Hrafn er ekki fyrsti fjölmiðlamaðurinn sem gengur til liðs við Pírata fyrir komandi kosningar. Björn Þorláksson, fyrrverandi ritstjóri, gaf kost á sér í prófkjör fyrir Norðausturkjördæmi og vildi leiða listann. Hann endaði hins vegar í sjöunda sæti og gagnrýndi flokkinn harðlega fyrir klíkuskap í kjölfarið.