„Flestir hafa svarað, en það á enn eftir að óska eftir frekari upplýsingum, og skoða málin betur,“ segir Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, um mál 178 einstaklinga sem embættið spurðist fyrir um, í kjölfar þess að skattrannsóknarstjóri keypti gögn, er vörðuðu aflandsfélagaeignir, af huldumanni í fyrrasumar.
Málin eru í formlegri skoðun og sendi embættið bréf til einstaklingana, þar sem spurt var út í misræmi milli framtala og skattskjólsgagna sem skattrannsóknarstjóri keypti. Þrjátíu mál voru formlega sett í skattrannsókn, en Skúli Eggert segir að fara þurfi sérstaklega yfir svörin við spurningum embættisins og meta hvort þörf sé á frekari gagnaöflun. „Þetta getur verið tímafrek vinna,“ segir Skúli Eggert.
Ríkisstjórnin samþykkti í aprí í fyrra aukafjárveitingu til embættis skattrannsóknarstjóra upp á 37 milljónir króna til þess að kaupa gögnin um fjárhagslegar eignir íslenskra aðila í þekktum skattaskjólum.
Íslensk stjórnvöld hafa aldrei fyrr keypt gögn sem þessi en bæði bandarísk og þýsk stjórnvöld fóru þessa leið með nokkrum ávinningi, eftir að einstaklingar komu til baka með fjármuni og eignir sem höfðu verið geymd í skattskjólum.
Skattrannsóknarstjóri fékk sýnishorn af gögnunum send í fyrra, og lét fjármálaráðuneytið vita af málinu. Sýnishornin 50 sem embættið fékk bentu sterklega til þess að skattaundanskot hafi átt sér stað, og var í kjölfarið ákveðið að kaupa gögnin.
Ekki hefur verið gefið upp hvaða einstaklingar það eru, sem gagnalistinn fyrrnefndi tengist.