Innanríkisráðherra Bretlands, Theresa May, fékk miklu fleiri atkvæði en allir aðrir frambjóðendur til formennsku í breska Íhaldsflokknum í fyrstu umferð formannskjörsins. May hlaut stuðning 165 þingmanna flokksins, en næst á eftir henni var Andrea Leadsom, sem hlaut stuðning 66 þingmanna.
Þriðji í kjörinu var Michael Gove, sem hlaut 48 atkvæði, og þar á eftir Stephen Crabb, sem fékk 34. Liam Fox rak lestina með 16 atkvæði, og það þýðir að hann dettur út úr kjörinu sjálfkrafa. Stephen Crabb tilkynnti svo nú í kvöld að hann myndi líka draga sig út úr kjörinu. Hann sagðist af öllu hjarta styðja Theresu May til formanns.
Önnur umferð formannskjörsins hefst á fimmtudag. Ef þörf krefur verður svo kosið milli tveggja efstu frambjóðendanna næsta þriðjudag, og þá munu grasrótarmeðlimir í flokknum geta kosið.
May sagðist vera ánægð og þakklát fyrir stuðninginn sem hún hlaut í fyrstu umferðinni, en nánast algjörlega tryggt er að hún verður annar þeirra frambjóðenda sem kosið gæti verið um á þriðjudag. „Það er mikið verk fyrir höndum hjá okkur, að sameina flokkinn okkar og landið, að semja um besta mögulega samning nú þegar við yfirgefum ESB og að gera Bretland að landi fyrir alla.“
Úrslitin eru hins vegar áfall fyrir Michael Gove dómsmálaráðherra sem brá fæti fyrir félaga sinn og fyrrverandi borgarstjóra, Boris Johnson, þegar hann tilkynnti í síðustu viku að hann hygðist sjálfur sækjast eftir formennsku í flokknum. Fram að því hafði verið talið að Johnson færi fram og Gove yrði hans hægri hönd, mögulega sem fjármála- eða utanríkisráðherra. Þeir voru báðir mjög áberandi í baráttunni fyrir því að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið.
Ákvörðun Gove hefur verið sögð stunga í bak Johnson, og atburðarásinni líkt við House of Cards eða aðrar dramatískar sjónvarpsþáttaraðir.
Boris Johnson lýsti í gær formlega yfir stuðningi við Andreu Leadsom, og sagði hana hafa allt sem til þyrfti til að leiða Bretland. Talið er að stuðningur hans hafi hjálpað henni mikið og fylkt stuðningsmönnum þess að yfirgefa ESB að baki henni.