Stjórnmálaflokkurinn Dögun ætlar að bjóða fram til Alþingis í öllum kjördæmum. Kjördæmisráð um land allt vinna nú að uppstillingum á lista. Helga Þórðardóttir, formaður Dögunar, segir mönnun lista hafa gengið vel.
„Við erum ekki búin að fylla þá en erum með fullt af fólki. Enda erum við búin að vera starfandi á fullu síðan í síðustu kosningum þegar við vorum nýtt framboð,“ segir hún.
Minnka völd fjármálakerfisins yfir lífi fólks
Dögun varð til fyrir síðustu Alþingiskosningar 2013 þegar flokksmenn úr Borgarahreyfingunni, Hreyfingunni, Frjálslynda flokksins og fleirum tóku sig saman. Meðal flokksmanna 2013 voru Andrea J. Ólafsdóttir, Gísli Tryggvason og Margrét Tryggvadóttir, þáverandi formaður. Dögun náði engum manni inn á þing og hlaut 3,1 prósent atkvæða 2013.
Helga segir flokkinn kominn með öll málefnin og lögð verði áhersla á tiltekinn verkefnalista fyrir komandi kosningar. Meðal málefna eru afnám verðtryggingar, stofnun samfélagsbanka, sameinað lífeyriskerfi, hækkun grunnframfærslu, þjóðareign á auðlindum og ný stjórnarskrá.
„Þetta er verkefnalistinn sem við ætlum að nota til að laga Ísland og minnka völd fjármálakerfisins yfir lífi okkar,“ segir Helga. „Þetta er það sem sameinar okkur en svo er hvert kjördæmaráð með sínar áherslur eins og gengur.“
0,5 prósenta fylgi
Dögun hefur ekki mælst vel í skoðanakönnunum undanfarin misseri. Í nýjustu Kosningaspá Kjarnans var fylgið 0,5 prósent. Helga segir flokkinn einfaldlega ekki hafa fengið að vera með í skoðanakönnunum. „En við vonum að þessar kosningar fari ekki að snúast um að velta sér upp úr skoðanakönnunum, eins og gerðist í forsetakosningunum,“ segir Helga.