Tvöfalt fleiri konur hafa óheilbrigt viðhorf til mataræðis heldur en karlar. 22 prósent kvenna hafa svokölluð hamlandi fæðuviðhorf, en ellefu prósent karla. Óheilbrigð viðhorf til matar eru algengust meðal yngri kvenna á aldrinum 18 til 29 ára, en 36 prósent þeirra falla undir skilgreininguna, en aðeins 15 prósent karla á sama aldri. Tæplega 40 prósent kvenna sem eru ósáttar við eigin líkamsþyngd hafa óheilbrigt viðhorf gagnvart mat og 23 prósent karla. Þetta kemur fram í rannsókn um viðhorf Íslendinga til eigin mataræðis sem birt var í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Líðan og viðhorf fólks í tengslum við eigið mataræði hefur lítið verið rannsakað meðal fullorðinna Íslendinga. Fram kemur í ágripi rannsóknarinnar að í flestum vestrænum samfélögum sé mikil áhersla lögð á granna og stælta líkama en á sama tíma þyngjast alltaf fleiri og fleiri. Slíkt getur haft slæm sálfræðileg áhrif, valdið kvíða og stuðlað að hamlandi viðhorfum í tengslum við mat og fæðuval. Ein ástæðan fyrir óheilbrigðu viðhorfi gagnvart fæðu gæti verið tengd fyrri reynslu af megrunarkúrum.
Þær Ólöf Dröfn Sigurbjörnsdóttir lýðheilsufræðingur, Jóhanna Eyrún Torfadóttir, næringar- og lýðheilsufræðingur, Anna Sigríður Ólafsdóttir næringarfræðingur og Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur gerðu rannsóknina og var hún birt í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Fram kemur í blaðinu að endurtekin megrun geti orðið að viðvarandi ástandi og leitt til óheilbrigðs viðhorfs til eigin mataræðis. Slíkt getur valdið kvíða og vanlíðan ásamt átröskunum og öðrum alvarlegum kvillum. Eins og áður segir eru konur í yfirþyngd eru tvöfalt liklegri til að hafa óheilbrigð viðhorf gagnvart mat heldur en konur í kjörþyngd. Hins vegar er hættan á því þreföld meðal karla í yfirþyngd samanborið við karla í kjörþyngd.
Rannsóknin byggir á könnun Landlæknisembættisins árið 2007 sem var lögð fyrir 5.861 einstakling á aldrinum 18 til 79 ára. Í greininni er vitnað í skýrslu frá árinu 2012 þar sem fram kom að tæp 42 prósent kvenna hafi reynt að létta sig og tæp átta prósent á aldrienum 18 til 44 ára hafi verið með átröskun á einhverjum tímapunkti.
Í þeirri rannsókn kom fram að helmingur kvenna er ósáttur við eigin líkamsþyngd og 35 prósent karla. Um 30 prósent beggja kynja fær samviskubit þegar borðuð eru sætindi og meira en helmingur telur sig þurfa að hafa stjórn á því hvað er borðað.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er sú ályktun dregin að hamlandi viðhorf til eigin mataræðis eru algengari meðal kvenna en karla. Eftir því sem fólk er yngra, óánægðara með eigin líkamsþyngd og ofþyngd sýnir meiri tengls við hamlandi fæðuviðhorf hjá báðum kynjum. Há líkamsþyngd, óánægja með eigin líkamsþyngd, ungur aldur og það að vera kona eykur líkurnar á hamlandi fæðuviðhorfum. Þetta endurspeglar niðurstöður sambærilegra rannsókna sem gerðar hafa verið erlendis.